Næstvaldamesti maður Brasilíu í nýrri stjórn Jair Bolsonaro, forseta landsins, er án efa hagfræðingurinn og frjálshyggjumaðurinn Paulo Guedes, sem starfaði sem efnahagsráðgjafi forsetaframbjóðandans en hefur nú á eigin hendi öll ráðuneyti efnahagsmála í landinu.

Á sama tíma og átök hafa verið innan stjórnarinnar í því hvernig bregðast eigi við ástandinu í Venesúela, hefur Guedes sett fram víðtæka umbótaáætlun til að rífa hagkerfi landsins úr viðjum spillingar og sósíaldemókratískra tilraunastarfsemi til að rétta af félagslegt óréttlæti að því er fram kemur í viðtali FT við manninn sem nú stýrir fimm ráðuneytum.

Það eru ráðuneyti fjármála, verslunar, verkalýðsmála, iðnaðar og þróunar, en Guedes hefur sett sér það markmið að losa um reglugerðarfarganið og auðvelda fólki að stofna fyrirtæki og hefja rekstur. Segist hann ætla að draga úr áratugagömlum ríkisafskiptum af hagkerfinu, m.a. með umbótum á lífeyriskerfi landsins sem spara eigi andvirði 350 milljarða Bandaríkjadala.

Hagkerfið mjög lokað

„Brasilía er áttunda stærsta hagkerfi heims en í 130. sæti yfir opnustu hagkerfin, á svipuðum stað og Súdan. Það er einngi í 128. sæti yfir hvar er auðvelt að stunda viðskipti, ég meina... Jesús Kristur,“ segir Guedes og hleypur upp úr sæti sínu, en hann vill helminga stöðu Brasilíu á þessum listum á næstu fjórum árum, með því að draga úr eyðslu, laga flókið skattkerfi landsins og einkavæða ríkiseignir.

Guedes, sem kemur sjálfur úr lægri millistétt í Brasilíu er með doktorsgráðu í hagfræði frá Háskólanum í Chicaco, en um tíma starfaði hann í Síle á tímum stjórnar Pinochet sem tók völdin þar í landi að beiðni þingsins og ríkti sem einræðisherra um tíma, áður en hann lét af völdum eftir að meirihluti hafnaði því að framlengja vald hans í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég sá Síle sem var fátækara en Kúpa og Venesúela eru í dag, og Chicaco strákarnir löguðu það. Síle er núna eins og Sviss,“ segir Guedes sem gefur lítið fyrir gagnrýni á aðferðir þeirra til að laga hagkerfið.

Hann hefur einnig litla þolinmæði fyrir gagnrýninni sem margir hafa haft gagnvart forsetanum, Bolsanaro sem kallaður hefur verið hitabeltis-Trump, en einnig gagnrýndur fyrir lof sitt á herforingjastjórnum landsins á síðustu öld.

Guedes segir þvert á móti að efnahagssýn stjórnarinnar sé meira í ætt við Reagan heldur en Trump, og kjör Bolsonaro sé ekki hluti af kosningasigrum þjóðernissinnaða hægrisins víða um heim og engin ógn við lýðræðið í landinu. „Það er alger andstæða við það. Það voru skilaboð mín í Davos,“ sagði Guedes í annarri grein í FT sem segir markmiðið að stöðva forréttindi ákveðinna hópa.

„Hagkerfið mun vaxa hraðar. En við verðum að vera raunsæ. Það þarf að laga mikinn skaða,“ segir Guedes sem segir innbyggt spillingarkerfi og pilskapítalisma ástæðuna fyrir því að fyrrum forseti landsins, Lula da Silva sé nú dæmdur í 12 ára fangelsi. Segir hann hagkerfið hafa verið spillt og það hafi spillt stjórnmálunum.

Bolsonaro verður harður gegn hinum illu

„Ef Bolsonaro er harður í framkomu, þá er það eingöngu út á við. Hann verður harður gagnvart þeim illu,“ segir Guedes og vísar í mikla glæpaöldu og lögleysu sem hrjáir landið, en þar létust 64 þúsund vegna morða árið 2017.

Guedes vísar mikið í hugmyndafræði austurríska heimspekingsins Karl Popper, sem George Soros er einnig aðdáandi að, sem þjóðernissinnaðir stjórnvaldssinnar víða um heim líta á sem óvin sinn.

„Hugmyndafræði er aðalóvinurinn,“ segir Guedes sem segist bara vera vísindamaður sem sé að vinna vinnuna sína, en hann segir aðspurður að auðvitað sé frjáls markaður og frjálslyndi í stjórnmálum samræmanlegt.

„Auðvitað. Rússland og Brasilía höfðu glasnost áður en perestroika kom. [...] Þú verður að hafa bæði. Þegar þú færð hagvöxt, þá færðu millistétt sem kemur á stöðugleika.“ Það sé andstæðan við ríki sem byggt sé á rentusókn í vasa ríkisins og spillinguna sem fylgir því.

Stjórn Bolsonaro og Guedes hefur tekið við efnahagskerfi þar sem er gríðarlegur hallarekstur, sívaxandi opinberar skuldir og nærri metatvinnuleysi með 12 milljón atvinnuleysingjum, lítilli framleiðni og litlum hagvexti, svo ljóst er að mikil verkefni eru framundan.