Farþegar á Keflavíkurflugvelli geta valið úr áætlunarflugi til 39 áfangastaða í vetur og verður nú í fyrsta sinn hægt að fljúga beint héðan til Brussel, Dyflinnar og Gdansk yfir köldustu mánuðina. Þetta kemur fram í nýrri samantekt Túrista.

Þar kemur fram að af þeim flugleiðum sem starfræktar verða frá Keflavíkurflugvelli í vetur sé aðeins samkeppni um farþegana á ellefu þeirra. Það er aftur á móti meira en á síðasta ári og munar þar mest um að Wow air hefur hafið flug til Boston og Washington í Bandaríkjunum í samkeppni við Icelandair.

Þá mun þýska flugfélagið Airberlin hefja flug milli Keflavíkur og Berlínar í vetur, en einnig munu flugfélögin Wizz Air og British Airways hefja Íslandsflug á næstunni.

Hægt er að sjá lista yfir áfangastaði vetrarins á heimasíðu Túrista.