Verkfall átti að hefjast í álverinu í Straumsvík á miðnætti, en því hefur verið frestað af samninganefnd starfsmanna álversins.

Ákvörðunin er sögð hafa verið tekin vegna þess að enginn raunverulegur samningavilji þótti vera til staðar hjá Rio Tinto, eiganda versins. Vísir segir frá þessu.

Starfsfólk álversins er óánægt með frestun verkfallsins og einhverjir sagðir íhuga uppsagnir. Starfsfólkið fékk bréf frá fulltrúum samninganefndarinnar þar sem segir að gagnslaust sé að halda fyrirætlununum um verkfall áfram í ljósi þess að frambúðarlokun álversins hafi verið hótað.

Krafa samninganefndarinnar var skýr, segir í bréfinu. Farið var fram á sambærilegar launahækkanir eins og samið hefur verið um á almennum vinnumarkaði. Þá er einnig nefnt að í engum öðrum kjarasamningum hafi starfsfólk neyðst til að semja störf sín yfir í annað og réttindaminna launakerfi.