Dennis Muilenburg, forstjóri bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing segir að tollastíð milli Bandaríkjanna og Kína gæti haft verulega skaðleg áhrif á flugiðnaðinn. Þetta kemur fram í frétt BBC . „Flugiðnaðurinn þrífst á frjálsum og opnum viðskiptum og hefur jákvæð hagræn áhrif allstaðar í heiminum,” sagði Muilenburg á blaðamannafundi í tilefni af Farnborough flugsýningunni sem hefst á morgun.

Að sögn Muilenburg munu auknir tollar verða til þess að kostnaður flugvélaframleiðenda hækkar verulega. Á sama tíma og Bandaríkin og Kína hafa staðið í tollastríði undanfarin misseri þar sem ríkin hafa hækkað tolla á vörur hvors annars vill forstjóri Boeing leita annara leiða til að leysa deiluna. „Við höfum áhyggjur af því að tollastríð muni hækka verð í allri framleiðslukeðjunni sérstaklega þar sem framleiðslukeðjan flæðir á milli beggja landa. Við höfum átt samtal við stjórnvöld í hvoru landi fyrir sig og erum viss að okkar rödd heyrist.” Samkvæmt frétt BBC er Muilenburg þó nokkuð bjartsýn á að lausn muni finnast í deilu landanna.

Bandaríska ríkið hefur í þessum mánuði lagt á eða hækkað tolla sem nema um 34 milljörðum dollara á kínverskar vörur sem eru fluttar inn til landsins. Varð það til þess að kínversk stjórnvöld svöruðu í sömu mynt og hækkuðu tolla á bandarískar vörur eins og svínakjöt og soja-baunir. Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur hins vegar hótað að ganga enn lengra og leggja á tolla sem myndu nema um 200 milljörðum dollara. Kínversk stjórnvöld hafa gefið það út að ef af þeim aðgerðum verður muni þau gera slíkt hið sama.