Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing opnaði pöntunarreikning sinn með látum á árlegu flugsýningunni í Farnborough á Englandi sem hófst í dag, með því að tilkynna um pöntun bandaríska flugfélagsgins Air Lease að andvirði 7,2 milljarða Bandaríkjadala.

Það er í sjálfu sér ekki óvanalegt að tilkynnt sé um stórar pantanir hjá Boeing og helsta samkeppnisaðilanum, evrópska flugvélaframleiðandanaum Airbus, á flugsýningum á borð við Farnborough. Síðustu daga hafa þó fjölmiðlar og greiningaraðilar í flugheiminum fjallað mikið um að í vændum sé mikið stríð á milli risanna um að greina frá stórum pöntunum.

Þá bíða margir með mikilli eftirvæntingu eftir því hvaða nýungar Airbus og Boeing munu kynna á sýningunni, en félögin nota oft sambærilega sýningar til að greina frá stórum ákvörðunum, s.s. framleiðslu á nýrri vél eða endurbótum á vélum sem þegar eru í framleiðslu.

Boeing reið á vaðið í morgun með því að tilkynna um pöntun Air Lease á 75 Boeing 737Max vélum, en þar er um að ræða nýja framleiðslu af mestu seldu vél Boeing sem á að verða sparneytnari vél með aukinni flugdrægni samanborið við eldri útgáfur. Vélinni er ætlað að keppa við Airbus A320neo vélarnar. Til gamans má geta þess að í gær var byrjað að framleiða A320 vélina en framleiðsla á 737Max hefur ekki hafist ennþá.

Það er ekki að sjá á flugheiminum að það sé efnahagskrísa víðs vegar um heim. Í stuttu máli stafar það helst af því að líklega eru fáir geirar sem gera jafn miklar framtíðaráætlanir eins og fluggeirinn enda panta flugfélög gjarnan vélar um 7-12 árum áður en þau fá þær afhentar. Það er nokkuð ljóst að framundan er mikil barátta á milli Airbus og Beoing um sölu á fyrrnefndum vélum, þ.e. bætti útgáfu af Beoing 737 og eins A320neo vélinni.

Rétt er að geta þess að frá árinu 2006 hefur Airbus selt fleiri vélar á ári hverju en Boeing, sem er breyting frá því sem áður var.

Hvað nýungar varðar þá tilkynnti Airbus í morgun að til stæði að hefja framleiðslu á nýrri útgáfu af A330 vélunum, en um er að ræða tveggja hreyfla breiðþotu með flugdrægni upp á um 10.500 – 12.500 km. Með nýrri hönnun á vélunum stendur til að auka flugdrægni þeirra og burðargetu. Vélinni verður ætlað að keppa við Beoing 777 breiðþotuna.

Airbus A330-300 vél í eigu US Airways Group.
Airbus A330-300 vél í eigu US Airways Group.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Airbus A330-300 vél í eigu US Airways.