Áhugamál Boga Nils Bogasonar, fjármálastjóra Icelandair Group, tengjast flest íþróttum og er golf þar efst á blaði. „Ég hef stundað það frá því að ég byrjaði að spila með pabba og bróður mínum þegar ég var 7 ára austur á Eskifirði. Mér tókst að draga konuna í sportið líka, sem er mikill kostur, og strákurinn okkar var líka á fullu í mörg ár. Það klikkaði reyndar eitthvað uppeldið á dætrum okkar og þær eru eiginlega á móti golfi og það verður að viðurkennast að þær kvarta stundum yfir því hvað mikill tími fer í golf í fríum o.þ.h.“

Á veturna eru það skíði og badminton sem Bogi og fjölskylda stunda. „Við förum reglulega á skíði í Bláfjöll og Skálafell og síðan reynum við fjölskyldan að komast einu sinni á vetri í besta skíðasvæði landsins, Oddskarð. Tveir síðustu páskar þar hafa verið engu líkir. Í janúar fórum við hjónin í skíðaferð til Vail Colorado með nokkrum vinahjónum og var sú ferð alveg frábær. Eitthvað sem við stefnum á að gera aftur. Vinnan hefur aðeins verið að trufla mætinguna í badmintonið en yfir vetrartímann er ég með fasta tíma tvisvar í viku með góðum hópum.“

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, sem fylgir með Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .