Í ræðu Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair Group á aðalfundi félagsins í gær sagði hann Isavia skekkja samkeppnisstöðu á flugmarkaði með fyrirgreiðslu til einstakra flugfélaga að því er Morgunblaðið greinir frá.

„Samkeppnisaðilar hafa fengið að safna upp skuldum á Keflavíkurflugvelli, sem skekkir verulega samkeppnisstöðu á markaði,“ sagði Bogi Nils sem sagði jafnframt að stjórnvöld og Isavia hafa ýtt undir að dregnir hafi verið til landsins „ferðamenn sem hafa keypt flugfargjöld langt undir kostnaðarverði, þrátt fyrir að lítil sem engin þjónusta sé innifalin“.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun hefur keppinautur Icelandair, Wow air, sent skuldabréfaeigendum sínum ný skilyrði vegna viðræðna um fjárfestingu Indigo Partners í félaginu, sem nú horfir til þess að verða hærri en áður var rætt um eða um 11 milljarðar króna. Í vikunni var sagt frá því í fréttum að Wow air hefði ekki borgað leigu af húsnæði sínu á Höfðatorgi , en áður hafði komið fram að félagði hafði ekki greitt feyrisiðgjöld starfsmanna í nokkra mánuði.

Það allt kemur til viðbótar því að forsvarsmenn félagsins neituðu fréttum um milljarðaskuld við Isavia með þeim orðum að það hefði aldrei skuldað félaginu tvo milljarða króna. Bogi Nils segir þetta ganga berhögg við þá stefnu sem mótuð hafi verið að hingað ætti frekar að reyna að draga virðisaukandi ferðamenn, þar sem horft væri frekar til gæða heldur en magns.

„Þessi þróun er ekki sjálfbær, hvorki fyrir hagkerfið, náttúruna né ferðaþjónustuna í heild sinni,“ segir Bogi Nils sem segir margar fjárfestingar byggja á því að hingað muni halda áfram að streyma ódýrir ferðamenn í stórum stíl. „Afleiðingar stefnu- og eftirlitsleysis undanfarinna ára geta orðið sársaukafullar á næstu vikum og mánuðum. Byggðar hafa verið upp væntingar um að hingað muni streyma ferðamenn vegna ódýrra flugfargjalda um ókomin ár.“