Hagfræðingurinn Ingólfur Bender er kominn aftur á gamlar slóðir. Hann hefur síðastliðin 17 ár starfað sem aðalhagfræðingur og forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka. Þar áður starfaði hann sem hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Hann tók á dögunum við starfi sem hagfræðingur Samtaka iðnaðarins og er því snúinn aftur eftir 17 ár.

Ingólfur segir starf sitt núna vera í raun annað starf en þegar hann starfaði síðast hjá SI fyrir um 20 árum. „Bæði hefur starfið breyst mikið og ég líka. Samtökin eru stærri, það eru fleiri stoðir undir samtökunum þar sem fyrirtækjunum hefur fjölgað. Samtökin eru núna í húsnæði atvinnulífsins og nú eru hagsmunasamtökin komin öll á einn stað sem er mjög jákvætt þar sem það gerir allt starf miklu áhugaverðara og öflugra,“ segir Ingólfur og nefnir sérstaklega að hann sé ánægður með að það séu hagfræðingar á öllum hæðum hússins

Fyrir utan vinnu segist Ingólfur hafa afskaplega gaman af útivist og hreyfingu. „Ég hef gaman af því að fara á skíði, fjallgöngur og njóta náttúrunnar. Ég hef auk þess áhuga á öllu sem tengist heilsu og líkamsrækt.“ Fyrir utan útivist og hreyfingu segist Ingólfur njóta þess að hlusta á góða tónlist og segir hann að það sé „fátt skemmtilegra en að fara á góða tónleika“.

Ingólfur hefur gaman af lestri góðra bóka. Spurður hvað hann lesi helst segir hann: „Ég bý svo vel að ágætur vinur minn, Þröstur Helgason sem er dagskrárstjóri Rásar 1, gaukar stundum að mér einhverjum hugmyndum. Hann var einmitt fyrir stuttu að láta mig fá bókabunka sem ég er að fara í gegnum.“

Nánar er rætt við Ingólf í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .