Uppboðsleiðin gæti leitt til þess að eigið fé í sjávarútvegi hyrfi og eiginfjárhlutfall færi úr 32% í það að vera neikvætt um 46 milljarða króna, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.

Í umræðunni um uppboðsleiðina hefur sjónum einkum verið beint að því hvaða leiðir séu bestar til að ákvarða afgjaldið sem útgerðin skuli greiða fyrir aflaheimildir. Lítið hefur verið rætt um hvaða áhrif kerfisbreyting eins og uppboðsleiðin gæti haft á eiginfjárstöðu sjávarútvegsfyrirtækja.

Aflaheimildir ber að færa til eignar þegar þær eru keyptar annaðhvort beinum kaupum eða óbeinum, svo sem þegar félög eru keypt eða sameinuð. Bókfærð eign aflaheimilda miðað við árið 2014 er um 249 milljarðar króna og eru aflaheimildir um 43,4% af heildareignum. Eigið fé sjávarútvegsfélaga í árslok 2014 nam 185 milljörðum. Eiginfjárhlutfall er um 32% af heildareignum.

Ef ríkið tekur allar aflaheimildir af útgerðinni án þess að gagngjald komi fyrir þarf að gjaldfæra þær í ársreikningum sem myndi þýða að bókfært eigið fé hyrfi. Áætlað er að bókfært eigið fé gæti lækkað um 231 milljarð og það yrði þá neikvætt um 46 milljarða miðað við árslok 2014.

Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta.