Lindarhvoll ehf. var stofnað þann 15. apríl 2016 og var tilgangur félagsins að annast umsýslu, fullnustu og sölu á eignum ríkissjóðs samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur nú sent Alþingi greinargerð með nánari upplýsingum um starfsemi Lindarhvols ehf. og framvindu vinnu við úrvinnslu þeirra stöðugleikaeigna sem ríkissjóður fékk í sinn hlut í tengslum við nauðasamninga slitabúa fallinna fjármálafyrirtækja.

Í greinargerðinni er fjallað um framvindu við úrvinnslu stöðugleikaeignanna, auk þess sem veittar eru upplýsingar um ráðstöfun stöðuleikaframlagsins ásamt áætlun um framvindu verkefnisins.

Í nóvember síðastliðinn sendi fjármála- og efnahagsráðuneytið Alþingi síðast upplýsingar um framvindu við úrvinnslu eignanna. Nýjasta skýrslan gerir því grein fyrir stöðu, framgangi og áætlunum við úrvinnslu eignanna frá þeim tíma og fram til 3 febrúar.

Samkvæmt mati stöðugleikaeignanna, sem gert var við framsal þeirra í janúar 2016, og byggði að mestu leyti á bókfærðu virði eignanna hjá slitabúunum sjálfum, nam bókfært virði alls 384,3 milljörðum króna.

Þar af var laust fé metið á 17,2 milljarða króna, framseldar eignir á 60,4 milljarða króna, skilyrtar fjársópseignir voru metnar 18,4 milljarða króna og framlög vegna viðskiptabanka á 288,3 milljarða króna.

Bókfært virði stöðugleikaeigna í beinni Lindarhvols ehf. við upphaf starfsemi félagsinsin þann 29. apríl síðastliðinn nam samtals 58,6 milljörðum króna.