Hugbúnaðurinn Bókun, sem er sölu- og birgðakerfi í íslenskri ferðaþjónustu, hefur tengst við Viator, sem er bókunarvél TripAdvisor.

Í gegnum tengingu sína við Bókun geta íslenskir ferðaþjónustuaðilar selt vörur sínar í rauntíma hjá Viator og TripAdvisor og fjölda annarra sölurása. Viator býr yfir framboði af ferðum og afþreyingu á 1500 stöðum í heiminum.

Viator sem er í eigu TripAdvisor er ferða og afþreyingarsöluaðili á netinu. Viator færir ferðalöngum bókunarþjónustu fyrir þúsundir ferða á yfir 1500 stöðum.

"Við höfum fylgst með eftirtektarverðum vexti íslenskrar ferðaþjónustu síðustu árin. Nýsköpun og sköpunargleði íslenska ferðaþjónustusamfélagsins er svolítið eins og íslensk náttúra; kraftmikil, óvænt og öflug," segir Ken Frohling, framkvæmdastjóri hjá Viator.

Bókun er sölu-, birgða- og stjórnunarkerfi fyrir ferðaþjónustuaðila á sviði ferða og afþreyingar, bílaleiga og gistingar. Bókun gerir notendum sínum kleift að vinna saman og selja kross-selja vörur annarra.

"Tengingin við Viator og þar með TripAdvisor, er þýðingarmikil fyrir viðskiptavini Bókunar og íslenska ferðaþjónustu", segir Hjalti Baldursson, forstjóri Bókunar.