Á aðalfundi Íslenska Viðskiptaráðsins í Japan, sem fór fram í sendiráði Íslands í Tókýó, en sendiráðið hefur umsjón með starfi ráðsins, var ný stjórn kosin til næstu tveggja ára.  Heiðursformaður ráðsins er Hannes Heimisson, sendiherra Íslands í Japan.

Viðskiptaráðið fagnar jafnframt ráðgerðri undirritun tvísköttunarsamnings Íslands og Japans í janúar á næsta ári en ráðið hefur undanfarin ár beitt sér fyrir því að Ísland og Japan hefji viðræður um samninga sem snúa að fríverslun, tvísköttun, loftferðum og gagnkvæmum tímabundnum atvinnuréttindindum.

Ný stjórn er þannig skipuð:

  • Bolli Thoroddsen framkvæmdastjóri Takanawa Japan K.K. var endurkjörinn formaður
  • Manabu Fukuda stjórnarmaður Fulbright sjóðsins í Japan var kjörinn varaformaður
  • Halldór Elís Ólafsson viðskiptafulltrúi sendiráðs Íslands í Japan, var skipaður aðalritari.

Aðrir stjórnarmenn sem kosnir voru eru:

  • Akiko Hasegawa, fyrrv. viðskiptafulltrúi íslenska sendiráðsins í Japan
  • Hirotaka Ueno, forstjóri Cross Alliance Group
  • Kenta Inaba framkvæmdastjóri COAST Corporation, umboðsaðila Hampiðjunnar í Japan
  • Kaoru Nozu aðalfulltrúi Takanawa Pharamceutical
  • Shoko Nireki framkvæmdastjóri Össur Japan.

Frá síðasta aðalfundi árið 2015 hafa verið haldnir fjölmennir opnir kynningarfundir og minni fundir japanskra og íslenskra ráðherra og ráðamanna, fyrirtækja og fjármálastofnana segir í fréttatilkynningu ráðsins. Má þar nefna fund með menntamálaráðherra Japans, fund með ráðherra efnhags- og fjármála Japans, fund með Seðlabankastjóra Íslands, fund utanríkismálanefndar Íslands með japönskum fjármálastofnunum, fundi fulltrúa íslenskra orkufyrirtækja með fulltrúum úr japanska stjórnarráðinu og fjármálastofnunum, fund um jafnréttismál og fleira.

Viðskiptaráðið hefur einnig staðið að mörgum fundum með öðrum viðskiptaráðum í Japan, þar sem erlendum fyrirtækjum í Japan hefur gefist kostur á að efla sín tengslanet og læra af reynslu annarra erlendra fyrirtækja á Japansmarkaði, en sem dæmi um gesti má nefna forstjóra SAS, IKEA og Nespresso í Japan.

Utan Evrópu er Japan næst stærsta viðskiptaríki Íslands á eftir Bandaríkjunum. Japan er jafnframt stærsti útflutningsmarkaður Íslands í Asíu og árið 2016 fögnuðu ríkin 60 ára stjórnmálasambandi.  Viðskiptatengsl Japans og Íslands hafa sjaldan verið meiri. Fleiri og fleiri íslensk fyrirtæki eru að hefja starfsemi í Japan eða í samstarfi við japönsk fyrirtæki.

M.a. vegna þessarar jákvæðu þróunar var stofnað á þessu ári japanskt viðskiptaráð á Íslandi sem mörg af stærstu fyrirtækjum Íslands taka þátt í. Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi og stjórnarformaður Icelandair Group, var kjörinn fyrsti formaður ráðsins. Íslenska Viðskiptaráðið í Japan hlakkar til samstarfsins við hið nýstofnaða viðskiptaráð á Íslandi.

Íslenska Viðskiptaráðið í Japan mun halda áfram að styðja og efla vináttu og viðskiptatengsl þjóðanna og vonast til þess að fleiri íslensk fyrirtæki sjái tækifæri í samvinnu við japönsk fyrirtæki.