Bolungarvík og Patreksfjörður eru einu vestfirsku sveitarfélögin sem hafa náð að bæta við sig kvóta frá 1991. Kvótahlutdeild Bolungarvíkur er nú 61 prósenti meiri en hún var fiskveiðiárið 1991/1992, en Patreksfjörður hefur bætt við sig nærri þriðjungi kvótahlutdeildar á tímabilinu.

Standa verr að vígi
Önnur bæjarfélög Vestfjarða standa flest mun verr að vígi en þau gerðu árið 1991. Fyrir utan Djúpuvík og Súðavík, sem hafa misst allan kvóta sinn, hafa Bíldudalur og Hólmavík misst nánast allan kvótann. Þingeyri og Flateyri hafa sömuleiðis misst bróðurpartinn.

Alls hafa Vestfirðir misst um þriðjung aflahlutdeildar sinnar frá upphafi fiskveiðiársins 1991/1992, en um það leyti var búið að heimila með lögum frjálst framsal aflahlutdeilda.

Á línuritinu sést að mesta breytingin varð á árunum 1995 til 2001. Fyrstu árin var kvótahlutdeild Vestfjarða á milli 12 og 14 prósent, en eftir aldamót voru Vestfirðir verið með um það bil 10 prósent kvótans til ársins 2013 en duttu síðan niður í átta prósent tæp á nokkrum árum.

Tekið skal fram að upplýsingar um kvótahlutdeild í þorskígildistonnum ná aðeins aftur til fiskveiðiársins 2000/2001, þannig að samanburður þorskígildistonna við upphafsárið 1991/1992 er ekki nema gróflega nákvæmur.

Athyglisvert er að sjá að kvótahlutdeild Vestfjarða í þorskígildistonnum hefur nú síðustu þrjú árin eða svo verið hærri en kvótahlutdeild Vestfjarða í úthlutuðum tonnum, eins og sjá má á línuritinu. Það segir okkur að verðmætari tegundir hafi í auknum mæli komið í hlut Vestfjarða.

Áþekkur kvóta HB Granda
Þess má síðan geta að heildaraflahlutdeild Vestfjarða nú er álíka há og kvótahlutdeild HB Granda, kvótahæsta útgerðarfélags landsins, sem fékk úthlutað 8,9 prósentum heildarkvótans nú 1. september.

Ef Bolungarvík er skoðuð sérstaklega þá sést að bæjarfélagið missti stóran hluta kvóta síns um aldamótin síðustu. Bærinn var með 1,5 til 2 prósent kvótans á árunum fyrir aldamót en var komið niður undir 0,5 prósent árið 2000. Aðeins fáum árum síðar tók útgerð þar að ná sér á strik aftur og bætti við sig kvóta nánast árlega næsta áratuginn. Stökk var síðan tekið á fyrstu árunum eftir hrun, þegar aflahlutdeild Bolungarvíkur fór úr tæplega 2 prósentum upp í ríflega 2,6 prósent.

Nú er Bolungarvík komin með 2,81 prósent heildarkvóta landsmanna. Það jafngildir nærri tólf þúsund tonna afla eða rétt tæplega 11 þúsund þorskígildistonnum.

Bróðurparturinn af þeim kvóta, eða 2,06 prósent, er í höndum Jakobs Valgeirs sem nú er í 15. sæti yfir stærstu kvótahafa landsins. Í síðustu viku skýrði Fiskistofa frá því að Jakob Valgeir sé eina útgerðarfélagið á landinu sem komið er upp yfir leyfilegt hámark krókaaflakvótahlutdeildar, og hefur fyrirtækið fengið frest til að leiðrétta þá stöðu.

Athyglisvert er einnig að skoða muninn á kvótahlutdeild Bolungarvikur í aflatonnum og þorskígildistonnum. Þá sést að rétt eins og Vestfirðir í heild hefur hlutdeild Bolungarvíkur í þorskígildistonnum verið hærri en hlutdeild bæjarins í aflatonnum nú síðustu árin. Á árunum 2012 til 2015 minnkaði hlutdeild Bolungarvíkur í aflatonnum úr 2,94 prósentum niður í 2,21 prósent án þess að hlutdeildin í þorskígildistonnum minnkaði jafn mikið.