Niðurstöður prófana á lífvirkni bóluþangs sýna fram á jákvæð áhrif þess að nota þangextraktið og að það hafi góða möguleika sem fæðubótaefni, sem innihaldsefni í matvæli og húðkrem. Kolbrún Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Matís, segir að markaðsrannsókn sem framkvæmd var samhliða verkefninu veiti einnig frekari innsýn í markaðsþróun og markaðstækifæri fyrir þang.

GUÐJÓN GUÐMUNDSSON

[email protected]

Um er að ræða þriggja ára verkefni um lífvirkni bóluþangs sem styrkt var af Nordic Innovation. Verkefninu var stýrt af Matís og unnið í samvinnu við VTT í Finnlandi, Háskóla Íslands, Háskólann í Kristianstad og fyrirtækin Marinox, FinnSnack, Pharmia og UNA Skincare.

Bóluþang vex eingöngu í fjörum og er algengt við strendur Evrópu . Það er um 40 til 90 cm hátt, brúnt á litinn en stundum grænleitt eða brúnleitt. Nafn sitt dregur bóluþangið af áberandi loftfylltum bólum. Bólurnar eru oftast ofan til á þanginu en stundum eru þær líka í þéttum röðum niður eftir allri plöntunni. Blöðin eru eins til tveggja cm breið. Bóluþangið festir sig við botninn á steina eða klappir.

Ný aðferð Marinox

Kolbrún segir að aðdragandi verkefnisins hafi verið sá að fyrirtækið Marinox hafi þróað nýjar aðferðir til að framleiða extrakt úr bóluþangi með mikla lífvirkni samkvæmt prófunum í tilraunaglösum. Ljóst var að þetta gæti skapað tækifæri innan matvæla- og snyrtivöruiðnaðar. Fyrst þurfti þó að staðfesta lífvirknina með frekari prófunum. Vörur sem innihalda þangextraktið voru þróaðar og prófaðar innan verkefnisins og viðbrögð neytenda við notkun þess sem fæðubótaefni og sem innihaldsefni í matvörum voru rannsökuð.

Marinox er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem sérhæfir sig í vinnslu lífvirkra efna úr sjávarþörungum.

„Sýn Marinox er sjálfbær nýting og sköpun verðmæta úr vannýttu hráefni eins og þangi sem gnægð er af á Norðurlöndunum. Marinox þróaði aðferð til að vinna þangextrakt með mikilli lífvirkni í tilraunaglösum. Aðferðin skapar tækifæri til þess að nýta extraktið í matvæli og snyrtivörur,“ segir Kolbrún.

Afar jákvæðar niðurstöður

Hún segir að  aðaláherslan í verkefninu hafi verið að rannsaka áhrif af neyslu þangextrakts og notkun húðkrems sem inniheldur efnið.

„Því til viðbótar rannsökuðum við og þróuðum vörur til margvíslegrar annarrar notkunar á þangextrakti eins og sem fæðubótarefni, innihaldsefni í matvælum og innihaldsefni í húðkremi. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi rannsóknar- og þróunaraðila innan greinarinnar á Íslandi, Finnlandi og í Svíþjóð. Til að gera langa sögu stutta má segja að niðurstöður prófana á einstaklingum hafi verið afar jákvæðar, bæði af neyslu þangextrakts í hylkjum til lengri tíma og notkun húðkrems sem inniheldur þangextraktið. Heildarniðurstöðurnar eru þær að mikið gagn geti verið af notkun þangextrakts úr bóluþangi, Fucus Vesiculosus, sem innihaldsefni í fæðubótarefnum, matvælum og snyrtivörum.“

Hún segir að samhliða verkefninu hafi verið framkvæmd markaðsgreining sem hafi varpað ljósi á þau tækifæri sem felast í markaðssetningu á vörum sem innihalda þangextraktið sem geti vísað framleiðsluaðilum veginn fram á við.