*

sunnudagur, 19. maí 2019
Fólk 9. mars 2019 19:00

Bóndinn verður bankastjóri

Sindri Sigurgeirsson er nýr svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi.

Kristján Torfi Einarsson
Sindri Sigurgeirsson fyrir utan gamla vinnustaðinn í Bændahöllinni þar sem nýju vinnuveitendurnir eru með útibúi.
Haraldur Guðjónsson

 

Starfið leggst ákaflega vel í mig. Ég hlakka til þess að kynnast nýju fólki og nýjum viðfangsefnum. Eðli starfsins samkvæmt mun ég fá tækifæri til að hitta fólk sem deilir áhuga mínum á því að byggja upp og efla bæði atvinnulíf og menningu hér á svæðinu. Sömuleiðis verður áhugavert að nálgast fólk frá annarri hlið og sjá málefni frá öðru sjónarhorni en ég hef gert hingað til. Breytingar eru tækifæri til þess að læra eitthvað nýtt og ég er mjög þakklátur fyrir þetta tækifæri,“ segir Sindri.

Sindri og eiginkona hans, Kristín Kristjánsdóttir, eru sauðfjárbændur og halda nokkur hross á búinu á Bakkakoti í Stafholtstungum. Þar hafa þau búið alla sína samvist og alið upp börnin sín tvö. Sindri er hins vegar borgarbarn að uppruna, fæddur í Reykjavík og alinn upp í Árbænum. Hvernig stóð á því að hann sagði skilið við mölina og gerðist bóndi í Borgarfirði? „Ég var alltaf mikill sveitamaður í mér og eftir ellefu ára aldur var ég allt sumarið í sveit. Það kom engum af samnemendum mínum í Árbæjarskóla á óvart þegar ég varð bóndi. Eftir grunnskóla vildi ég fara beint í bændaskólann, en ég segi stundum að ég hafi farið í Menntaskólann við Sund fyrir mömmu,“ segir Sindri. Eftir tvö ár í menntaskóla fékk hann sínu fram og var sestur á skólabekk bændaskólans.

„Ég er útskrifaður búfræðingur frá Hvanneyri og seinna hóf ég nám í viðskiptafræði á Bifröst. Félagsmálin hafa skipað stóran sess í lífi Sindra og rétt eins og sveitamennskan þá beygðist krókurinn snemma í þá áttina. „Það var æskuvinur minn í Árbænum, Gauti Eggertsson, sem fékk mig til að taka fyrsta skrefið á þessari braut, en hann var formaður nemendaráðs í Árbæjarskóla og fékk mig til liðs við ráðið. Síðan þá má segja að ég haft þessa þörf að hafa skoðanir á hlutunum og skipta mér af,“ segir Sindri, sem hefur gegnt formennsku í Bændasamtökunum frá árinu 2013.

„Það hefur nú ekki gefist mikill tími til að sinna áhugamálunum undanfarin ár. Við hjónin erum dugleg í hestamennskunni og förum á hverju sumri í nokkra daga hestaferð um hálendi og víðerni Íslands. Ég reyni líka að mæta vikulega og syngja með karlakórnum Söngbræður hér í sveitinni. Ég er hræddur um að mætingin hjá mér sé langt frá því að vera upp á tíu síðustu ár en þetta horfir allt til betri vegar. Með nýju starfi mun losna um nokkra klukkustundir sem áður voru bundnir við akstur til og frá vinnu. Vonandi get ég nýtt þær stundir til meiri samvista með vinum og fjölskyldu,“ segir Sindri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Sindri sigurgeirsson
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim