Framkvæmdastjóri Deutsche Bank segist ekki skilja hvers vegna hann ætti að leggja harðar að sér fyrir bónusgreiðslu ofan á launin sín.

„Ég hef enga hugmynd um af hverju mér var boðinn samningur með launabónus,” sagði John Cryan, sem var nýlega ráðinn framkvæmdastjóri Deutsche Bank. „Ég mun ekki leggja meira eða minna á mig á einum degi eða einu ári vegna þess að mér hefur verið lofað meiri pening fyrir það.”

John segir laun í bankageiranum vera of há, og segist ekki tengja við starfsfólk sem leggur bara hart að sér til að fá launahækkun. „Ég hef aldrei skilið hvers vegna hærri laun ættu að fá fólk til að starfa öðruvísi,” sagði Cryan.

John lætur þessi orð falla á sama tíma og hann stendur frammi fyrir miklum niðurskurði í fyrirtækinu, en á næstu tveimur árum mun bankinn segja upp heilum 35.000 starfsmönnum. Það mun spara honum einhverja 535 milljarða íslenskra króna.

Það kemur ef til vill engum á óvart að kollegar Cryan í bankageiranum séu ósammála skoðunum hans. „Hann má að sjálfsögðu hafa sínar skoðanir,” segir ónefndur hátt settur bankamaður staðsettur í Lundúnum. „En þetta snýst bara um markaðshagfræði - framboð og eftirspurn.”

Þrátt fyrir athugasemdir Cryan hefur Deutsche Bank haldið áfram að ráða til sín fólk á mjög háum launum. „Starf framkvæmdastjórans snýst jafn mikið um stjórnun og það snýst um stjórnmál,” er haft eftir ráðningarfulltrúa bankans - en mögulegt er að Cryan sé að leika ákveðið pólitískt hlutverk fyrir evrópskum löggjöfum sem hafa gefið í skyn að þeim finnist tímabært að bankar greiði lægri laun til starfsfólks síns.