Úr viðtali Viðskiptablaðsins við Höskuld Ólafsson, bankastjóra Arion banka.

Er réttlætanlegt að hafa bónusgreiðslur í bönkunum?

„Við áttum okkur á því að það er umdeilt. Mín skoðun er sú að það megi réttlæta þá, sérstaklega á ákveðnum sviðum. Þeir geta haft jákvæð áhrif í fjármálastarfsemi, eins og annarri starfsemi," segir Höskuldur.

„Ég er hins vegar sammála því að menn þurfi að fara ákaflega varlega í þessu og þetta þarf allt að vera í réttum hlutföllum. Einnig er rétt að horfa til þess að í dag gilda mjög strangar reglur um svona kerfi innan fjármálafyrirtækja, ólíkt því sem áður var,“ segir hann.

Hluti af sambærilegum starfsskilyrðum

„Í stóra samhenginu finnst mér það skipta mestu máli að við séum með sambærileg starfsskilyrði hér á landi og aðrir bankar sem starfa í okkar samanburðarlöndum. Það er þannig á þessum íslenska bankamarkaði að erlendir bankar eru með um 40% af fyrirtækjamarkaðnum og eru um þessar mundir tiltölulega atkvæðamiklir í nýjum lánveitingum, sérstaklega til útgerðarinnar. Þeir hafa áhuga á því sem kallað er „global collaterals“ eins og til dæmis nýjum skipum sem hægt er að fara með annað ef illa tekst til. Þeir hafa kannski minni áhuga á öðru sem íslensku bankarnir sinna þá. Það að geta greitt bónusa er hluti af því að hafa hlutina hér á landi eins og þeir eru annars staðar, en við þurfum að fara varlega.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .