Kaupaukastefna Kaupþings, sem samþykkt var á hluthafafundi í vikunni, tekur til allra starfsmanna fyrirtækisins, fyrir utan forstjóra, Paul Copley, og framkvæmdastjórann John. P. Madden. Kemur þetta fram í tilkynningu á vefsíðu Kaupþings . Þar segir að alls taki kaupaukastefnan til ríflega 30 starfsmanna.

Eins og fram hefur komið að kaupaukagreiðslurnar geti alls numið um 9,3 milljónum punda, eða um 1,5 milljarða króna. Það ræðst þó af því hversu heimtur af eignum félagsins verða miklar og hversu hratt gengur að greiða andvirði þeirra til hluthafa. Gætu greiðslurnar í versta falli orðið engar. Í tilkinningunni segir að 1,5 milljarður króna jafngildi um 0,3% af heildarvirði eigna Kaupþings.

Í tilkynningunni segir að markmiðið með stefnunni sé að hámarka endurheimtur til hluthafa, halda í starfsfólk eins lengi og þörf er á og að hvetja starfsfólk til að vinna hratt að því að klára verkefnið sem framundan er.

Tekið er fram í tilkynningunni að Kaupþing sé eignarhaldsfélag samkvæmt íslenskum lögum og heyri því ekki undir lög um fjármálafyrirtæki. Eins sé félagið ekki í gjaldþrota- eða slitameðferð eftir að kröfuhafar samþykktu nauðasamning í fyrra. Að lokum er tekið fram að Kaupþing ráði ekki rekstri Arion banka.