Fyrirtækið Boom Technology, sem er með höfuðstöðvar í Denver í Bandaríkjunum, stefnir að því að fara í fyrsta reynsluflugið á nýrri farþegaþotu á næsta ári. Bandarísku fjölmiðlarnir CNN , Bloomberg , Gizmag og fleiri hafa fjallað um Boom á síðustu dögum.

Nýja þotan mun aðeins taka 40 farþega en ferðast á 2.450 kílómetra hraða á klukkustund eða ríflega tvöföldum hljóðhraða (e. Mach 2.2). Gömlu Concorde farþegaþoturnar, sem hætt var að nota árið 2003, flugu á 2.180 kílómetra hraða á klukkustund (e. Mach 2.04).

Concorde-þoturnar tóku 92 til 108 farþega en flugmiðinn á milli London og New York kostaði um 12.000 dollara. Talsmenn Boom segja að hægt verði að bjóða miklu lægra flugfargjald með nýju þotunum og að miðinn milli stórborganna tveggja muni kosta um 5.000 dollara, sem er svipað og hann kostar ef ferðast er á lúxus-farrými stóru flugfélaganna í dag. Það mun taka Boom-þotuna 3,6 klukkutíma að fljúga á milli London og New York.