Að sögn Ragnars Þórssonar, sjóðsstjóra hjá íslenska vogunarsjóðnum Boreas Capital, ríkir mikil ánægja með sölu á kanadíska olíurannsóknarfélaginu Tanganyika Oil til kínverska fyrirtækisins Sinopec International. Kaupverðið er tveir milljarðar Kanadadollara, eða um 200 milljarðar íslenskra króna eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Ríflega eitt og hálft ár er síðan Boreas fjárfesti í Tanganyika Oil en Ragnar hafði einnig fjárfest í félaginu þegar hann stýrði fjárfestingum hjá Straumi-Burðarás. Boreas átti ríflega 5% hlut í Tanganyika sem er þeirra stærsta eign. "Þetta er góð jólagjöf sem hluthafarnir fengu frá Kína. Það hefur í för með sér að sjóðurinn skilar góðu uppgjöri þetta árið í samanburði við vístölur. Þetta hjálpar heildarávöxtun sjóðsins vel," sagði Ragnar. Hann vildi þó ekki gefa upp ávöxtun sjóðsins á þessari einu eign.

Boreas er eingöngu fyrir stofnanafjárfesta og eignir hans nema nú um 10 milljörðum króna. Nánast allar fjárfestingar hans eru erlendis. "Nú er löngu ferli lokið og við erum farnir að skoða í kringum okkur. Á borðinu eru mörg fjárfestingartækifæri og þar á meðal fjögur til fimm lítil og meðalstór félög í olíugeiranum sem við höfum áhuga á að fjárfesta í." Þar sem Boreas er íslenskur fjárfestingarsjóður fellur starfsemi hans undir nýju gjaldeyrislögin og hann hefur því heimild til að nota þá fjármuni sem koma fyrir Tanganyika Oil í aðrar fjárfestingar í olíuiðnaði. "Það eru gríðarleg tækifæri til langs tíma í ansi mörgum olíuframleiðslu og þjónustufyrirtækjum á Norðurlöndunum og þá aðallega á norska markaðnum núna, þar sem við munum sjá V/H hlutföll í kringum 3 til 4, og EV/Ebitda hlutföll upp á 1.5-2.5 fyrir árið 2009. Við ætlum því að taka þátt í þeirri útsölu sem er nú í gangi á mörkuðum eftir að þessar stóru peningagreiðslur frá Kína koma til okkar á milli jóla og nýárs," segir í Viðskiptablaðinu í dag en ítarlegri útgáfa viðtalsins fylgir hér á eftir:

Ragnar benti á að olíulindir þær sem Tanganyika Oil ætti í Sýrlandi væru gríðarlega mikils virði, sérstaklega fyrir þá sem hugsuðu til langs tíma eins og ætti við um Kínverjana. Segja má að með sölunni séu þeir að kaupa hverja tunnu í jörðinni á 3 dollara. "Þetta eru ágætis kaup fyrir Kínverjana en það hefðu sjálfsagt margir bakkað út eins og ástandið hefur verið undanfarið," sagði Ragnar. Hann benti á að það yrði að horfa til þess að Sinopec er að hluta til í eigu kínverska ríkisins. Því er ekki nóg fyrir stjórn félagsins að samþykkja kaup heldur þurfi einnig að fá leyfi frá stjórnvöldum í Beijing.

Undanfarið ár hefur gengi bréfa Tanganyika Oil sveiflast verulega enda margir fjárfestar haft efasemdir um að Kínverjarnir stæðu við tilboð sitt sem kom í september. Þá var verð á olíu um 110 Bandaríkjadalir á tunnu. Upp úr því byrjaði verðið að lækka verulega og fór alveg niður í 40 dali.

Ragnar segir að þeir hjá Boreas hafi alla tíð haft trú á að Kínverjarnir stæðu við tilboð sitt. ,,Við vitum að Kínverjar horfa fleiri en tvö, þrjú ár fram í tímann. Þeir ætla að nota þessar lindir næstu 20 – 30 árin. Auk þess kaupa þeir tunnuna frekar lágu verði. Í þriðja lagi er þeim mjög annt um orðsporið. Það væri slæmt fyrir næstu kaup hjá þeim ef þeir höfnuðu þessu vegna skammtímabreytinga á olíuverði.”  Margir fjárfestar höfðu hins vegar ekki þorað að bíða og seldu sig út á miklum afslætti, en afsláttur á yfirtökuverðið sem er 205 sænskar krónur hefur legið á milli 20 og 30% síðustu tvo mánuði, áður en lokastaðfesting kom frá Beijing á mánudaginn. “Við erum sáttir við að hafa ákveðið að vera áfram inni.”  Þess má geta að Kínverjar eru að byggja olíuhreinsunarstöð skammt frá lindum Tanganyika í Sýrlandi og sagði Ragnar að það hefði eflt trú þeirra á að Kínverjarnir stæðu við tilboðið.

,,Nú er löngu ferli lokið og við erum farnir að skoða í kringum okkur. Á borðinu eru fjögur til fimm lítil og meðalstór félög í olíugeiranum sem við höfum áhuga á að fjárfesta í.” Þar sem Boreas er íslenskur fjárfestingasjóður fellur starfsemi hans undir ný gjaldeyrislögin og hann hefur því heimild til að nota þá fjármuni sem koma fyrir Tanganyika Oil í aðrar fjárfestingar í olíuiðnaði. “Það eru gríðarleg tækifæri í ansi mörgum olíufyrirtækjum á Norðurlöndunum núna þar sem við munum sjá V/H hlutföll í kringum 3 til 4. Við ætlum því að taka þátt í þeirri útsölu sem er nú í gangi á mörkuðum. Sjóðurinn hefur góða lausafjárstöðu og við ætlum að taka þátt í útsölunni eftir áramót. Þar horfum við sérstaklega til Noregs og þá bæði til félaga í olíuþjónustu og olíuframleiðslu. Þar horfum við einkum til smærri félaga sem stærri stofnannafjárfestar horfa ekki á. Einnig horfum við til fjármálafyrirtækja enda geta þau komið hratt upp eftir kreppu.”