Sænska fataverslunarkeðjan H&M sem ætti að vera flestum Íslendingum vel þekkt tilkynnti fyrir skömmu síðan að félagið hæfi brátt samstarf við hátískumerkið Balmain. Það hefur orðið æ vinsælla eftir að Kardashian systurnar hafa klæðst fötum þess, en verðmerkingarnar eru oftast nær á þann veginn að ekki hver sem er hefur efni á fötum þaðan.

Samstarf verslunarinnar við merkið átti að breyta þessu. H&M myndi framleiða flíkur sem hannaðar væru af Balmain og selja tiltölulega ódýrt. Að því kemur að fötin fara á sölu, og fólk bíður fyrir utan H&M löngu áður en sólin rís í langri röð til að koma höndum yfir flíkur merktar Balmain.

Mikið fár varð í verslunum fatasölurisans þennan morgun. Fólk barðist og kepptist um hvern efnisbút. Innan skamms var allt uppselt. Ekki nóg með það, heldur er allt uppselt á vefsíðum H&M sama sinnis.

Ævintýralegar verðmyndanir á uppboðum Ebay

Það fróðlega er þó að nú eru flíkurnar sem barist var svo hart um farnar að dúkka upp á uppboðsvefsíðunni Ebay - og á þreföldu upp í fimmföldu verðinu sem þær seldust á í verslunum H&M.

Blússa sem seldist á 500 dali eða 65 þúsund krónur - sem er þegar ansi bratt verð fyrir H&M fatnað - er að seljast á Ebay fyrir 1.300 dali, eða 182 þúsund krónur. Sumir hverjir eru jakkarnir að seljast á uppboði fyrir 520 þúsund krónur.

Fáránleikinn felst auðvitað í því hversu harkalega áætlanir fatasölurisans hafa umturnast. Tískumerkjaklæðnaður sem átti að vera ódýr og öllum aðgengilegur hefur hækkað í verði úr öllum völdum. Flíkurnar eru nú orðnar jafn dýrar og upprunalegu Balmain-fötin, sem allir ásældust svo.

Lögmálið um framboð og eftirspurn spilar eflaust sitt hlutverk í þessum undarlegu framvindu mála.