Íslensk heimili greiða minna fyrir orku- og veituþjónustu en heimili á hinum Norðurlöndunum. Mestu munar um verð á heitu vatni. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Samorka sendi frá sér í dag.

„Samanlagt greiða Íslendingar rúmum 400 þúsund krónum minna fyrir kalt og heitt vatn, rafmagn og fráveitu á ári hverju en þar sem þjónustan er dýrust," segir tilkynningunni. Í henni kemur jafnframt fram að sé miðað við heildarreikning fyrir 100 fermetra íbúð og meðalnotkun á ári, greiði íslenskt heimili um 247 þúsund krónur fyrir orku- og veituþjónustu.

„Í Kaupmannahöfn greiða íbúar í sams konar íbúð 655 þúsund krónur, sem er hæsta verðið á Norðurlöndunum og tæpum 34 þúsundum meira á mánuði en á Íslandi. Næstmest borga Finnar, eða um 588 þúsund á ári hverju og Svíar borga 480 þúsund. Orku- og veituþjónusta kostar næstminnst í Noregi, en þar greiðast 431 þúsund krónur árlega, sem er þó tæpum 184 þúsund krónum meira en á Íslandi."

Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um raforkusölu Orkuveitu Reykjavíkur: „Heimilin borga brúsann".