Eyþór Arnalds borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar segir að fleiri og fleiri fyrirtæki séu að flytja burt úr Reykjavík því lítið sem ekkert sé í boði af atvinnulóðum í borginni.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Eyþórs í Viðskiptablaðinu en hann segir stefnu meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Bjartrar framtíðar vera að fyrirtækin fari í Kópavog, Hafnarfjörð, Reykjanesbæ og Árborg. „Ekki minnkar þessi stefna umferðarvandann,“ segir Eyþór sem segir stefnuna veikja rekstur borgarinnar með minni tekjum af fyrirtækjum.

„Fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði eru um 12 milljarðar á ári. Vinnandi fólk vill oft búa sem næst fyrirtækjunum sem það starfar hjá. Það er því óumflýjanlegt að margir góðir útsvarsgreiðendur fylgi á eftir. Þessu vil ég breyta og búa fyrirtækjum og stofnunum góða kosti til að byggja upp og vera með starfsemi sína í Reykjavík. Keldnalandið er hér góður kostur þar sem mikið óskipulagt landsvæði liggur í austurborginni.“

Helmingur akreina illa nýttar

Segir hann að slík uppbygging mundi nýta samgöngukerfið betur, því á morgnana liggi leið fólks í vinnu vestur í bæ, en síðdegis aftur austur til að komast heim. „Helmingur akreinanna er mjög illa nýttur á háannatímum. Bætt skipulag með fleiri vinnustöðum austar í borginni eykur sjálfbærni og gæði hverfanna og minnkar álagið á umferðina. Þetta sparar ómælda fjármuni.“

Í greininni segir hann að borgin hafi fengið falleinkun sé tekið tilli til allra mælikvarða á gæði sveitarfélaga, það er á álögum, skuldsetningu og ánægju borgarbúa. Fasteignaskattar hafi hækkað víða um helming, 80% aukning skulda og mun minna hafi orðið úr uppbyggingu íbúða en lofað var.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá um helgina kynnti Eyþór og borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins kosningaloforð sín sem snúast um að snúa þessari þróun við. Þar sagði hann meðal annars að flokkurinn stefndi að því að byggja 2000 íbúðir á ári, ekki 322 líkt og var á síðasta ári, draga úr umferðartíma um fimmtung sem og draga úr biðtíma eftir þjónustu borgarinnar, hvort sem það væri á leikskólum eða í stjórnkerfinu.