Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og fulltrúi flokksins í innkauparáði Reykjavíkurborgar gerir alvarlegar athugasemdir við tveggja ára samstarfs- og styrktarsamning Reykjavíkurborgar við UngRÚV, sem hljóðar upp á rúmar 14 milljónir króna. Þar sé borgin ekki að fara eftir eigin reglum því upphæðin fari yfir viðmiðunarmörk um útboðsskyld verkefni.

Björn segir að gefa hefði átt öllum ljósavikamiðlum tækifæri á að bjóða í samstarfs- og styrktarsamninginn, enda sé samningurinn ekki í samræmi við innkaupareglur borgarinnar.

„Skv. 11. gr.  innkaupareglna Reykjavíkurborgar er skylt að viðhafa innkaupaferli, annað en verðfyrirspurn, þegar áætluð samningsfjárhæð að meðtöldum virðisaukaskatti nær 14 milljónum króna vegna kaupa á þjónustu eins og segir orðrétt í innkaupreglunum,“ segir Björn sem segir verkefnið sem slíkt þó vera jákvætt.

„Enda markmiðið með því að styðja við unglingalýðræði og skapa vettvang fyrir raddir unglinga í íslensku samfélagi. Engu að síður er það mín skoðun, og borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að eðlilegast hefði verið að auglýsa eftir samstarfsaðilum svo fleiri hefðu haft tækifæri á að bjóða í verkefnið.“

Björn vísar til þess að fjölmargir aðrir miðlar gætu sinnt þessari þjónustu og myndu glaðir þiggja til þess fé. „Enda er samkeppni á ljósvaka- og fjölmiðlamarkaði hér á landi.“  Þá kveðst hann alfarið á móti því að Reykjavíkurborg sé að setja reglur sem ekki er farið eftir. Eftir að Viðreisn gekk inn í borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna í kjölfar kosninganna í vor er Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Miðflokki, Flokki fólksins og Sósíalistum í minnihluta í borginni.