Reykjavíkurborg kaupir af ríkissjóði landsvæði sem liggur undir einu suðvestlægu flugbrautina á suðvesturhorni landsins.

Ríkissjóður seldi í síðustu viku um 108 þúsund fermetra landsvæði sem var undir hluta af neyðarbrautinni svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli til Reykjavíkurborgar.

Eina suðvestlæga flugbrautin í nágrenninu

Flugbrautin, sem er sú eina á suðvesturhorni landsins sem liggur í suðvestur, hefur verið notuð til farþegaflugs og í sjúkraflugi í stífum suðvestlægum vindáttum.

Er landið sem Reykjavíkurborg eignast til viðbótar við það sem hún átti fyrir um 63% af um 17 hektara landsvæði sem áætlað er til uppbyggingar byggðar í Skerjafirði við afnám flugbrautarinnar.

440 milljónir króna strax, meira við lóðasölu

Borgin hefur þegar greitt 440 milljónir króna fyrir landið, en viðbótargreiðslur munu koma til þegar lóðir verða seldar samkvæmt sérstökum ákvæðum í samningunum. Jafnframt skuldbindur borgin sig til að hraða sölu byggingaréttar eins og kostur er.

„Borgarstjóri hefur óskað eftir tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar um hvernig staðið verði að skipulagi og undirbúningi uppbyggingar á svæðinu, í samræmi við upprunalegan samning um kaup á landinu. Svæðið er ekki síst hugsað til að mæta brýnni þörf fyrir uppbyggingu húsnæðismarkaðar. Tillögur að verklagi eiga að liggja fyrir eigi síðar en 10. september 2016,“ segir í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.