Meirihlutinn í Reykjavík felldi í gærkvöldi með 9 atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna tillögu tillögu Mörtu Guðjónsdóttur um að hafist yrði handa við að skipuleggja byggð í Geldinganesi.

6 fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina kusu með tillögunni.

Neyðarástand í húsnæðismálum

Marta,Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að tillagan hafi verið lögð fram vegna þess neyðarástands sem er í húsnæðismálum sem rekja megi til langvarandi lóðaskorts í borginni.

„Mikilvæg forsenda þess að lækka húsnæðiskostnað er að auka framboð á lóðum í eigu borgarinnar,“ segir Marta. „Það á að vera skylda Reykjavíkurborgar, sem höfuðborgar og stærsta sveitarfélagsins á landinu, að sjá sjá til þess að hér séu tiltækar lóðir fyrir þá sem vilja byggja og búa hér.

Úthlutun lóða í Geldinganesi myndi stórauka framboð á byggingarlóðum í Reykjavík á hagstæðu verði og þannig hafa afgerandi, jákvæð áhrif á íbúðar- og leigumarkaðinn."

Langvarandi lóðaskortur í Reykjavík

Marta bendir á að uppsöfnuð þörf í Reykjavík séu 5.000 íbúðir og svo þurfi 1.000 til 1.500 íbúðir á ári bara til þess að halda í við náttúrulega fólksfjölgun.

„Það er lóðaskortur ríkjandi í borginni og hefur verið langvarandi í Reykjavík, enda er það stefna borgarstjórnar að úthluta ekki lóðum á sínu eigin landi,“ segir Marta, en nú eru tvö möguleg byggingarsvæði eftir í Reykjavík sem snúa á móti suðri.

„Borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki fjölga meira íbúum í Úlfarsárdalnum og svo hafnar hann uppbyggingu í Geldinganesinu, að öðru leyti hefur fjölgun lóða hjá þeim verið það lítil að hún mætir ekki þeirri þörf sem fyrir hendi er til að leysa húsnæðisvandann.

Þéttingarreitirnir eru dýrir

Samkvæmt aðalskipulagi er áherslan á að byggt sé upp á þéttingareitum, en þessir þéttingareitir eru mjög dýrir.“

Marta segir alltaf einhver þéttingu hafa verið í borginni, en gæta verði þess að hún sé skynsamleg og á sama tíma sé verið að skipuleggja ný hverfi.

Leiðir í raun til dreifðari byggðar

„Þéttingarstefna meirihlutaflokkanna í Reykjavík hefur í raun snúist upp í andhverfu sína,“ segir Marta. „Því sú stefna hefur leitt til meiri dreifingar byggðar þar sem fólk leitar nú í útjaðra nágrannasveitarfélaga eftir húsnæði.

Til marks um það er að á árunum 2013- 2017 hefur íbúum í nágrannasveitarfélögunum fjölgað meira en í Reykjavík.“