Alliance húsið svokallaða, á Grandagarði, sem áður hýsti verslun Ellingsen en hýsir nú veitingasafn, sögusafn og aðstöðu listamanna var leigt út fyrir rúma milljón á mánuði síðustu ár að því er Fréttablaðið greinir frá.

Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins sem situr í minnihluta segir ljóst að ekki sé allt með felldu en húsið var keypt árið 2012 á 350 milljónir og síðan voru 106 milljónir lagðar í viðgerðir á húsinu að utan.

Leigusamningar ekki birtir fyrr en við sölu

„Ekki frekar en í öðrum verkefnum borgarinnar að undanförnu. Það er með ólíkindum að borgin sé sem leigusali að gera samninga á miklu hagstæðari kjörum en hún sjálf leigir húsnæði, á, til dæmis í Borgartúni,“ segir Vigdís sem vísar þar til m.a. enduruppbyggingar Braggans í Nauthólfsvík sem Viðskiptablaðið ræddi við hana um .

„Borgin er beinlínis að gefa frá sér gæði, takmarkaða auðlind, á fyrstu og annarri hæð þessa húss. Að leigja svona á innan við þúsund krónur fermetrann, fólk mun verða brjálað.“ Reykjavíkurborg, sem er undir stjórn meirihluta Samfylkingar, VG, Pírata og Viðreisnar, kynnti nýlega um sölu á húsinu sem þýddi að fyrst nú voru leigusamningarnir birtir.

Rými listamanna af ótilgreindri stærð

Býðst húsið nú ásamt byggingarrétti til sölu á 900 milljónir króna. Í húsinu eru félögin Bismarck ehf. með 444 fermetra viðbyggingu til leigu á 400 þúsund krónur á mánuði og Sögusafnið Perlan ehf. fær 725,6 fermetra rými á 1. hæð á 580.480 krónur. Þetta gerir um 900 krónur á fermetrann fyrir minna rýmið og 800 krónur á fermetrann fyrir það stærra.

Til viðbótar eru fjórir listamenn með nokkur rými á efri hæð til leigu á 15 þúsund krónur á mánuði, en stærð þeirra er ekki tilgreind. Er dóttir Hrólfs Jónssonar, sem var skrifstofustjóri á sviði eigna- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg, meðal leigjenda þar, en eins og fram kom í fréttum sagðist hann bera ábyrgð á framúrkeyrslunni við enduruppbyggingu Braggans í Nauthólfsvík.