Reykjavíkurborg hefur hafnað beiðni Leiðarljós, félags í eigu Kjósarhrepps um að fá að gera 12 kílómetra skurð til að hægt sé að tengja hreppinn við ljósleiðarakerfi landsins að því er Morgunblaðið segir frá.

Ljósleiðarinn myndi liggja um land um 10 til 15 jarðeigenda sem eru innan borgarmarkanna sem Kjósarhreppur hefur boðið að gætu fengið aðgang að ljósleiðaratengingunni í leiðinni.

Sveitarstjóri Kjósarhrepps, Guðný G. Ívarsdóttir segir það venju sveitarfélaga að bjóða ekki tengingar í öðrum sveitarfélögum nema með leyfi þeirra. Hreppurinn sé tilbúinn að bjóða íbúum svæðisins tenginarnar á sama verði og öðrum íbúum sveitarfélagsins en Reykjavíkurborg hefur ekki samþykkt það.

Borgin undirbýr eigin lagningu ljósleiðara

Ástæðan er sögð vera að borgin hafi undirbúið útboð á lagningu ljósleiðara í dreifbýli borgarinnar og tregða sé við því að kljúfa þessa tilteknu bæjarröð frá því útboði.

Það geti hins vegar tekið tíma að koma heildarverkefninu til framkvæmda og á meðan þurfi íbúar og sumarhúsanotendur í Kjósinni að bíða með tilbúið kerfi sem ekki fáist tengt við landskerfið. Borgin hafi ekki svarað síðasta bréfi hreppsins um málið en Guðný segist hafa náð að setja Dag B. Eggertsson borgarstjóra inn í málið, en ekki náð samband við hann að undanförnu.

„Auðveldasta leiðin er að sækja ljósið að Fólkvangi á Kjalarnesi,“ segir Guðný en í dag búa íbúar svæðisins við léleg eða ekkert netsamband og lélegt sjónvarpsmerki.

„Þá þarf að fara í gegnum land Reykjavíkurborgar á Kjalarnesi og land í einkaeigu, um 12 kílómetra leið upp í Kiðafell. Á þeirri leið býr fólk sem er nánast netlaust og við fáum ekki að fara í gegnum land þess nema bjóða tengingar.“

Kjalarnes sameinaðist Reykjavík árið 1998.