Borgarráð hefur samþykkt tveggja ára aðgerðaráætlun sem miðar að því að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri borgarinnar. Reykjavíkurborg skilaði árshlutareikningi fyrr í dag en reksturinn var 8,8 milljörðum króna undir væntingum og halli samstæðunnar nam 2,4 milljörðum króna.

Samkvæmt áætluninni á miðlæg stjórnsýsla og stjórnsýsla á fagsviðum að taka á sig 5% hagræðingu á útgjöld samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun 2016 og þjónusta fagsviða á að hagræða um  1,5% að jafnaði  í útgjöldum og annarri þjónustu.  Alls nemur hagræðingin 1.780 milljónum í stjórnsýslu borgarinnar á næsta fjárhagsári. Í krónum talið er mestur niðurskurður hjá skóla- og frístundarsviði eða um 670 milljónir en einnig verður velferðarsviði gert að skera niður um 412 milljónir króna.

Áætlunin gerir ráð fyrir að útgjöld dragist saman á föstu verðlagi til ársins 2018 og að jafnvægi verði á grunnrekstri A hluta borgarsjóðs árið 2018, þ.e. að reglulegar tekjur standi undir rekstrarútgjöldum.

Í tilkynningu um málið segir að í leiðarljósi verði:

  • Að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa en að leita skuli hagkvæmari leiða til að veit hana
  • Að staðinn verði vörður um hagmuni barnafjölskyldna og að gjaldskrám verði áfram stillt í hóf
  • Að takmarka fjölda stöðugilda og hægt á nýráðningum eftir því sem er kostur
  • Að nýta betur húsnæði og fækkun fermetra í notkun vorgarinnar
  • Að stefnt verði að aukinni hagkvæmni í innkaupum, með aukinni samræmingu, rammasamningum og notkun örútboða þvert á svið og stofnanir borgarinnar í þeim vöru- og þjónustuflokkum þar sem tækifæri eru til að ná fram sparnaði.