*

þriðjudagur, 24. október 2017
Innlent 17. febrúar 2017 18:20

Borgun hagnaðist um 7,8 milljarða

Borgun hagnaðist um 7,8 milljarða króna á árinu. Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða 4,7 milljarða í arð.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildarhagnaður Borgunar hf. á árinu 2016 var ríflega 7,8 milljarðar króna.  Þar af komu 6,2 milljarðar vegna sölu VISA EU til VISA Inc. en hagnaður af reglulegri starfsemi reyndist rúmlega 1,6 milljarður króna, sem er í samræmi við áætlanir fyrir árið.  Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu, en aðalfundur Borgunar hf. var haldinn í dag.

Meirihluti þjónustutekna Borgunar hf. kemur frá Alþjóðasviði þar sem vöxtur félagsins hefur verið mestur.  Mikil aukning varð á árinu í færsluhirðingu erlendis, svo sem í Bretlandi, Ungverjalandi og Tékklandi og eru erlendir viðskiptavinir Borgunar hf. í þessum löndum nú þegar orðnir fleiri en íslenskir viðskiptavinir.

Á aðalfundi félagsins í dag var samþykkt að greiða 4,7 milljarða króna í arð til hluthafa félagsins. Greiðslan fer fram í tveimur hlutum.  Fyrri hluti greiðslunnar kemur til framkvæmda í febrúar 2017 og seinni hlutinn eigi síðar en sex mánuðum eftir aðalfund.

Helstu eigendur Borgunar hf. eru Íslandsbanki með tæplega 63% eignarhlut, Eignarhaldsfélagið Borgun með um tæp 34% og aðrir hluthafar með rétt um 4% eignarhlut.

Stikkorð: Borgun Uppgjör Arður