Nú þegar ljóst er að Michael Gove, utanríkis- og fjármálaráðherra Bretlands ætlar í framboð sem formaður breska Íhaldsflokksins hyggst Boris Johnson ekki bjóða sig fram í embættið. Boris var helsti talsmaður baráttunnar fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu sem kosið var um í þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu fyrir viku.

Bandamenn í þjóðaratkvæðagreiðslu

Lengi hefur verið talið að Boris sækist eftir embættinu en hann var borgarstjóri Lúndúnaborgar á árunum 2008 til 2016, en nú lýsir hann því yfir að hann muni ekki fara fram gegn Gove, en þeir borðust báðir fyrir úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu.

Gove mun þá mæta Theresu May, innanríkisráðherra, sem barðist fyrir áframhaldandi veru í sambandinu, um formannssætið.

Lekinn tölvupóstur

Fyrirfram var búist við því að Boris myndi bjóða sig fram í formannssætið en eftir að tölvupósti frá eiginkonu Gove var lekið vaknaði upp grunur um að bandalag þeirra tveggja væri ekki jafnsterkt og áður hafði verið talið. Var hann þar ynntur eftir nauðsynlegum tryggingum í innflytjendamálum áður en hægt væri að styðja hann.

Áhyggjur virðast hafa vaknað um að hann myndi ekki takmarka innflutning fólks til Bretlands eftir grein í Telegraph fyrr í vikunni, þar sem hann lýsti yfir vilja sínum til að viðhalda aðgengi að sameiginlegum markaði Evrópusambandsins. En yfirlýsingar hans síðar um að hann myndi takmarka innflutning virðast ekki hafa dugað til að sannfæra Gove um stuðning.