Alls hlutu 102 bótaþegar viðurlög í málum sem vörðuðu brot á lögum um atvinnuleysistryggingar á síðasta ári, en það eru næstum helmingi færri einstaklingar en ári fyrr. Þetta kemur fram í svari Vinnumálastofnunar við spurningu á vefnum Spyr.is .

Þar er þeirri spurningu beint til stofnunarinnar hvort hún hafi orðið vör við fækkun svika eða óréttmætrar bótatöku að undanförnu og hvort samhengi sé á milli slíkra tilvika og atvinnuframboðs í landinu.

Vinnumálastofnun svarar því til að 102 bótaþegar hafi hlotið viðurlög fyrir slíka háttsemi á síðasta ári, en á árinu 2013 hafi þeir verið 201 talsins. Það sé því ljóst að brotum á lögum um atvinnuleysistryggingar fari fækkandi, sem aðallega megi skýra með minnkandi atvinnuleysi.