Síðustu vikurnar hefur mikil umræða verið um hátt í hálfs milljarða króna kostnað við enduruppbyggingu braggans í Nauthólsvík þar sem samnefndur bar og veitingastaður er nú rekinn. Því var sest niður og rætt við Vigdísi Hauksdóttur, oddvita Miðflokksins, í sambyggðu fræðasetri HR sem einnig hefur verið eytt miklu fé í framkvæmdir við.

„Dagur B. Eggertsson segir sjálfur að bæði hann og borgin hafi farið að skoða það að koma þessum byggingum í not, svo blandast HR í þetta og svo fer boltinn bara af stað. Ég fór sjálf að skipta mér af þessu þegar það kom beiðni frá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar í sumar um að setja 150 milljónir til viðbótar hér í braggann.

Þetta mál er allt mjög skrýtið og stenst enga skoðun, að 70 milljónir hafi farið í minjavernd þegar Minjastofnun hefur sagt að húsin séu ekki nógu gömul til að falla undir vernd. Dagur keyrir málið á að þetta sé minjavernd en samt fara 30 milljónir í arkitektakostnað. Eina sem er upprunalegt er austurgaflinn, svo það hefði verið ódýrara að flytja inn nýjan bragga frá Bandaríkjunum, enda er braggi bara næsta stig við tjald,“ segir Vigdís.

Upplýsingar dregnar upp með töngum

„Við höfum þurft að draga allar upplýsingar um þetta mál upp með töngum. Þegar það kemur í ljós að einhver smiður er með opinn tékka inn í borgarsjóð í gegnum millilið sem er fyrrverandi starfsmaður borgarinnar og getur skuldbundið borgina en er farinn að vinna hjá sjálfum sér á arkitektarstofu, þá er eitthvað mikið að.

Í þessu ferli hefur borgin svo verið að reyna að slá ryki í augu okkar með því að gefa okkur upp rangar upplýsingar. Til dæmis um hve mikið var vinna og hvað voru efniskaup, en lögin um opinber fjármál eru skýr, efniskaup yfir 7 milljónir, arkitektaþjónusta yfir 11 milljónir og vinna yfir 18 milljónir eiga að fara í útboð svo hér er verið að brjóta þessar reglur.“

Vigdís er gagnrýnin á ýmsar hefðir og venjur í borgarstjórn sem hindra gagnsæi. „Píratarnir höfðu allt síðasta kjörtímabil til að vinna að sínu aðalstefnumáli, það er að opna stjórnsýsluna. Í dag er þó einungis ein málstofa í borgarstjórn sem er opin almenningi, það er borgarstjórnin sjálf, en öll ráðin og nefndirnar eru fyrir luktum dyrum.

Þó að í þinginu séu auðvitað flest mál svæfð í nefnd þá fara þau fyrst til atkvæðagreiðslu, en á borgarstjórnarfundum þegar góðar tillögur koma fram þá er þeim alltaf vísað eitthvert annað, og þá undir trúnað viðkomandi ráða og nefnda svo almenningur fær ekki að vita neitt um afdrif þeirra,“ segir Vigdís sem segist hafa gagnrýnt fyrirkomulagið frá fyrsta fundi.

Viðreisn gerð samsek í málinu

„Ég er ekkert vinsælasta stelpan í borgarstjórn fyrir vikið. Sem dæmi um þetta þá kom á síðasta borgarstjórnarfundi tillaga frá Sjálfstæðisflokknum um aukið frelsi í skóla- og leikskólamálum sem talaði beint inn í hjarta Viðreisnar. En til að bjarga meirihlutasamstarfinu var málinu vísað inn í nefnd borgarinnar svo nýjasti flokkurinn í borgarstjórnarmeirihlutanum þyrfti ekki að fara í atkvæðagreiðslu í borgarstjórn á þessum grunni.

Þannig hefur ekkert mál í raun verið fellt í borgarstjórn, til dæmis fór tillaga mín um að fá óháðan aðila til að rannsaka framúrkeyrsluna um braggann aldrei í atkvæðagreiðslu. Þess í stað var Dagur svo snjall að gera Viðreisn samseka í málinu með því að fá Þórdísi Lóu til að koma með málsmeðferðartillögu í þá veru að málið færi til endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

Þar sem málsmeðferðartillagan gengur framar tillögunni sem liggur til grundvallar þá dugir að tólf hendur séu á lofti til að svo verði, þannig að því leyti fékk tillaga mín aldrei atkvæðagreiðslu. Þetta er helsta bragðið í stjórnmálunum að svæfa og geyma flottustu tillögur þeirra sem eru í andstöðu við ríkjandi meirihluta svo þær séu orðnar úreltar þegar þær eru loksins afgreiddar í ráðum og nefndum.“

Vigdís hefur áhyggjur af því að þetta verði einmitt afdrif braggahneykslisins enda hafi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins verið að reyna að berjast í því að fá upplýsingar um málið á síðasta kjörtímabili.

Stjórnendum skipt út eins og í Bandaríkjunum

„Það var búið að biðja um álit borgarlögmanns í ár og hefur því ekki enn verið skilað. Svo virðist sem embættismennirnir kói allir með. Samtryggingin er gríðarleg enda sömu stjórnvöld búin að sitja svo lengi að kerfið er orðið samdauna fulltrúunum. Það hafa líka verið margar umdeildar ráðningar síðustu fimm til sex árin.

Að sjálfsögðu hefði innri endurskoðandi sem situr borgarráðsfundi og vissi að búið var að kalla eftir minnisblaði frá borgarlögmanni átt að setja af stað frumkvæðisathugun á þessu máli,“ segir Vigdís sem segist aðspurð vera hlynnt því að helstu stjórnendum sé skipt út við stjórnarskipti að bandarískri fyrirmynd.

„Ég talaði mjög fyrir því þegar ég var í þinginu enda óásættanlegt fyrir nýjan ráðherra að koma inn í ráðuneyti og standa kannski einn þar með aðstoðarmenn sína við hlið á móti kerfinu sem hann fær í arf frá fyrri ráðherra.

Þar sem ekki er hægt að segja upp opinberum starfsmönnum hefst þarna kapphlaupið um aukið fjármagn til að reyna að koma einhverju af því fólki sem getur framfylgt nýrri stefnu inn í ráðuneytin. Þannig verður þetta eins og lagkaka, það kemur nýtt lag í hvert skipti sem nýr ráðherra kemur inn og kerfið stækkar bara og stækkar. Þetta er mjög gallað kerfi hérna á Íslandi.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .