*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 2. mars 2017 12:13

Brandenburg með 16 tilnefningar

Auglýsingastofan Brandenburg hlaut flestar tilnefningar til íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðursins, þriðja árið í röð, eða 16 talsins.

Ritstjórn
Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburg.
Aðsend mynd

Auglýsingastofan Brandenburg hlaut flestar tilnefningar til íslensku auglýsingaverðlaunanna, Lúðursins, þriðja árið í röð, eða 16 talsins. Tilnefningarnar voru birtar í dag, en í fyrra hlaut Brandenburg 17 tilnefningar og uppskar þrjá Lúðra. Íslensku auglýsingaverðlaunin verða afhent á ÍMARK–deginum föstudaginn 10. mars næstkomandi í Hörpu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

„Við erum hæstánægð með tilnefningarnar. Bæði fyrir okkur sjálf og en ekki síst fyrir hönd viðskiptavina okkar. Það að við séum með flestar tilnefningar ár eftir ár segir okkur að við séum að gera góða hluti, eitthvað sem við sjálf gleymum stundum í þessum daglega hamagangi hér á stofunni,“ segir Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri.

Auglýsingastofan var stofnuð í byrjun mars 2012 og fagnar því fimm ára afmæli á sjálfum ÍMARK-deginum.

„Til að byrja með vorum við bara fjórir á stofunni en erum í dag tæplega  30 manna hópur sem býður upp á alhliða auglýsingaþjónustu, uppbyggingu vörumerkja og markaðsráðgjöf. Á síðasta ári gengum við inn í SÍA (Samtök íslenskra auglýsingastofa). Það voru ákveðin tímamót, svona eins og þegar barn fermist og kemst í fullorðinna manna tölu. Við ætlum að halda upp á afmælið með viðskiptavinum okkar og skemmta okkur hver svo sem úrslitin verða.“ segir Ragnar.