Breski bankinn Northern Rock á að heita Virgin Rocks! Þetta er tillaga Richard Branson, stofnanda Virgin-samsteypunnar sem hefur samið við breska ríkið um kaup á bankanum.

Northern Rock er með fyrstu fórnarlömbum fjármálakreppunnar. Hann fór á hliðina í september 2007 þegar upp komst að stjórnendur bankans hefðu leitað á náðir breska seðlabankans eftir neyðarláni. Þegar það fréttist þustu viðskiptavinir út í banka og tóku þeir út innstæður sínar með þeim afleiðingum að bankinn tæmdist.

Bankanum hefur nú verið skipt upp, í eignastýringarsvið og hefðbundinn viðskiptabanka og er það sá hluti sem Virgin-samsteypan kaupir.

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, að bankinn verði seldur á bókfærðu virði. Robert Peston, viðskiptaritstjóri BBC, segir ríkið hafa lagt 1,4 milljarða punda inn í bankann í fyrra og muni skattgreiðendur tapa á milli 400 til 650 milljónum punda.

Virgin-samsteypan hefur blásið til samkeppni um nýtt nafn á bankanum. Tillögurnar hljóða upp á Virgin Money og Virgin Bank. Branson segir sjálfur á Twitter-síðu sinni fremur kjósa Virgin Rocks! sem á íslenskri má snara sem „Virgin er æði.“