Í dag barst Viðskiptablaðinu ábending um hóp fólks sem gengur undir nafninu GEM Iceland. Hópurinn hefur reynt að lokka einstaklinga til sín í einhverskonar gjaldeyrisviðskipti. Margt bendir til þess að um pýramídasvindl sé að ræða og hefur hópurinn gefið út vafasamt kynningarmyndband sem tekið var á snekkju rétt fyrir utan Reykjavíkurhöfn.

Þjónustan sem braskararnir kynna heitir WealthGenerator og hefur áður hlotið neikvæða umfjöllun erlendis. Fulltrúar hópsins virðast ekki gera sér grein fyrir því að Íslendingar búi við fjármagnshöft, en ólíklegt er að hópurinn hafi fengið undanþágu frá Seðlabanka Íslands.

Vafasöm fræðsla

Blaðamaður Viðskiptablaðsins kynnti sér viðskiptahætti WealthGenerator í Bandaríkjunum. Kerfið virkar þannig að fulltrúi félagsins hefur samband við einstaklinga, fræðir þá um þjónustuna og fær þá í áskrift. Áskrifendur eru svo fengnir í að lokka aðra í viðskipti og þannig fer boltinn að rúlla.

Á heimasíðu WealthGenerator er hægt að velja á milli áskriftaleiða. WealthGenerator lofar einnig að kenna aðilum á gjaldeyrisviðskipti. Á Íslandi hafa nú þegar verið haldnir fundir, sem eiga að sýna fram á það að allir geti grætt á gjaldeyrisviðskiptum.

„Augljóst Pýramídasvindl!“

Viðskiptablaðið ræddi við nokkra reynda gjaldeyrismiðlara. Einn þeirra sagði að um augljósa svikamyllu væri að ræða. Miðlararnir þekktu sjálfir ekki til WealthGenerator, en sögðu það vera lagabrot að skipta á krónum og t.d. dollurum án heimilda til þess.

Gjaldeyrismarkaðurinn er stærsti fjármálamarkaður heims og er í flestum tilfellum ekki eins flókinn hvað varðar regluverk. Hins vegar er vert að benda á það að honum geta fylgt ófyrirsjáanlegar sveiflur og er einstaklingum því sjaldan ráðlagt að ráðast í gjaldeyrisbrask.

Einn miðlaranna taldi að félagið væri líklegast að selja aðgang að svokölluðu CFD platformi, þar sem þeir myndu selja samninga langt yfir markaðsvirði. CFD eða Contract for difference samningar, eru í raun afleiðusamningar sem heimila fólki að veðja á verðbreytingar á gjaldmiðlum og verðbréfum.

Aðilarnir fjarlægðu myndbandið af YouTube eftir að Viðskiptablaðið fjallaði um málið. Blaðamaður Viðskiptablaðsins náði þó að niðurhala því áður en það var fjarlægt.