King Digital, útgefandi og eigandi snjallsímaleiksins Candy Crush, sendi frá sér afkomuviðvörun í gær þar sem varað var við miklum samdrætti í tekjum og hagnaði félagsins á fyrsta ársfjórðungi. BBC News greinir frá þessu.

Ástæðuna fyrir samdrættinum segir fyrirtækið meðal annars vera að því hafi mistekist að gefa út nýja vöru á tímabilinu en auk þess drógust tekjur af tölvuleiknum töluvert saman milli ára. Í heild námu tekjur fyrirtækisins 569,5 milljónum dala og drógust saman um 6,1% á milli ára.

Gengi hlutabréfa í King Digital féll um 14% eftir tilkynningu félagsins.