Gengi hlutabréfa danska skartgripaframleiðandans Pandora tók sprettinn eftir að félagið birti uppgjör sitt fyrir fyrri hluta ársins. Gengið var 62,8 danskar krónur á hlut á mánudagsmorgun en er nú komið yfir 76 krónur á hlut. Bréfin eru hluti af þeim þáttum sem ákvarða virði seljendaláns Seðlabankans til eigenda danska bankans FIH í gegnum virði sjóðsins Axcel III, sem fjárfesti í Pandora.

Þetta þýðir þó ekki að Seðlabankinn geti fagnað strax því hlutabréf Pandora voru metin á vel yfir 300 danskar krónur á hlut þegar  best lét í byrjun árs 2011. Talsvert vantar því upp á til að virði félagsins nái fyrri hæðum og fari að skila aurum í kassa Seðlabankans.