Úrvalsvísitala kauphallar Nasdac Iceland hækkaði um 0,31% í 2,3 milljarða viðskiptum og stendur hún nú í 1.717,00 stigum. Aðalvísitala Skuldabréfa hækkaði einnig eilítið eða um 0,02% í 2,7 milljarða viðskiptum og var lokagengi hennar 1.340,00 stig.

Skeljungur hækkaði mest í virði í viðskiptum dagsins eða um 4,69% í 197 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfa fyrirtækisins nú 6,70 krónur. Næst mest hækkaði gengi bréfa Össurar eða um 4,35% í smávægilegum viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 480,00 krónur.

Mest viðskipti með bréf N1 og Vodafone

Mest viðskipti voru með bréf N1, eða fyrir tæpar 599 milljónir, bréf félagsins hækkuðu um 2,58% og náðu 119,50 krónum fyrir lokun markaða. Næst mest viðskipti voru með bréf Fjarskipta, móðurfélags Vodafone, en eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá hafa kaup félagsins á ljósvakamiðlum 365 miðla verið samþykkt, með skilyrðum þó.

Tilkynnt var um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins þess efnis eftir lokun markaða í dag en viðskiptin með bréf félagsins námu 410 milljónum og hækkaði gengi bréfanna um 1,10% í 64,30 krónur.

Icelandair og HB Grandi einu sem lækkuðu í virði

Einungis tvö félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, það er Icelandair Group sem lækkaði um 1,27% í 240 milljón króna viðskiptum og fór gengi bréfa félagsins niður í 15,55 krónur.

Einnig lækkað gengi bréfa HB Granda eða um 0,85% niður í 29,20 krónur hvert bréf, en einungis var um rétt rúmlega hálfrar milljón króna viðskipti að ræða.