Í Kauphöllinni eru þrjú félög sem starfa á smásölumarkaði en það eru Hagar, N1 og Skeljungur. Eins og flestir vita þá hefur mikið verið rætt um möguleg áhrif Costco á þennan markað og svo virðist sem bandaríska fyrirtækið hafi nú þegar haft áhrif.

Í lok apríl var undirritaður samningur um kaup Haga á öllu hlutafé í Olíuverzlun Íslands hf. (Olís) og fasteignafélaginu DGV ehf. Með kaupunum fylgir auk þess 40% eignarhlutur í Olíudreifingu ehf. Olís er með 115 starfsstöðvar um 50 stöðum úti á landi.

Heildarkaupverðið er tæplega 9,6 milljarðar króna og verður greitt annars vegar með reiðufé og hins vegar með afhendingu á 111 milljón hlutum í Högum, með því skilyrði að seljendur skuldbindi sig til að selja hvorki né framselja hlutina í 12 mánuði frá afhendingu. Kaup Haga eru með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Í nóvember á síðasta ári festu Hagar kaup á Lyfju á um það bil 7 milljarða króna Lyfja, sem rekur 39 apótek, var í eigu íslenska ríkisins í gegnum umsýslufélagið Lindarhvol. Á föstudaginn stóð gengi Haga í 54 sem er nákvæmlega sama gengi og um áramótin.

„Ég held að menn séu mjög spenntir fyrir kaupum Haga á Lyfju og Olís og sjái alveg fyrir sér að félag með allan þennan fjölda af verslunum geti alveg staðið uppi í hárinu á Costco," segir Kristján Markús Bragason, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka.

Samningaviðræður Skeljungs

Skeljungur sendi tilkynningu í Kauphöllina á sunnudagskvöldið þar sem fram kemur að samningaviðræður um kaup á Basko ehf. séu hafnar.

Basko fer með eignarhald á Rekstrarfélagi Tíu Ellefu ehf., Ísland Verslun hf. og Imtex ehf. Rekstrarfélag Tíu Ellefu ehf. rekur samtals 35 verslanir undir merkjum 10-11 og Háskólabúðarinnar og er einnig móðurfélag Drangaskers ehf. sem rekur fimm kaffihús undir merkjum Dunkin Donuts.  Félagið rekur einnig eina Inspired by Iceland verslun og veitingastaðinn Bad Boys Burgers & Grill.  Ísland Verslun hf. rekur þrjár verslanir undir merkjum Iceland.

Heildartekjur Basko-samstæðunnar á síðasta ári námu um 10 milljörðum króna á síðasta ári og eignir voru metnar á um 2.4 milljarða. Rekstrarhagnaður án afskrifta og fjármagnsliða (EBITDA) nam 309 milljónum króna á árinu 2016. Ef samningar takast er áætlað að Skeljungur greiði allt að 2,2 milljarða króna fyrir og verður greitt að fullu með 318,840,580 hlutum í Skeljungi hf. Miðað við gengi Skeljungs á föstudaginn þá hafði félagið lækkað um 6,2% frá áramótum.

Ólíkt hinum tveimur félögunum á smásölumarkaði hefur N1 ekki tilkynnt um nein stór viðskipti. Miðað við gengi í bréfa N1 á föstudaginn þá hefur það lækkað um 10,6% frá áramótum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .