Breki VE, nýr ísfisktogari Vinnslustöðvarinnar (VSV), heldur fljótlega „til veiða“  á miðin úti fyrir stöndum Kína en tilgangur sjóferðarinnar er að álagsprófa skipið og láta reyna á það við sem eðlilegastar aðstæður. Veiðarfæri voru send frá Evrópu til Kína af þessu tilefni.

Troll voru sett upp á netaverkstæði VSV fyrir prófunina og send í austurveg. Frá Bretlandi fóru Bridon togvírar til Kína og frá Danmörku fóru Thyroron hlerar og millilóð.

„Aðalatriðið er að kanna afl togskips með stærstu skrúfu íslenska fiskiskipaflotans. Auðvitað kostar verulega fjármuni og fyrirhöfn að senda veiðarfæri alla þessa leið en við viljum ganga úr skugga um að allur búnaður virki eins og til er ætlast áður en skipið verður afhent,“ segir Rúnar Helgi Bogason vélsmiður á vef Vinnslustöðvarinnar. Hann hefur verið í borginni Shidao í Kína í hálft annað ár og litið fyrir hönd útgerðanna eftir smíði Breka VE og Páls Pálssonar ÍS ásamt Finni Kristinssyni vélfræðingi. Síðarnefnda skipið er í eigu Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal.

Þetta eru systurskip, smíðuð eftir sömu teikningu en samt ekki eineggja tvíburar því fiskmóttaka í Breka er stærri en í Páli og á togdekki Breka er viðbótarlúga. Hvoru tveggja stafar af því að Breka er ætlað að stunda karfaveiðar í meira mæli en Páli. Að öðru leyti eru skipin eins og þau verða afhent samtímis, líkast til núna í marsmánuði. Gert er ráð fyrir að siglingin heim taki 58 sólarhringa og leiðin liggi um Panamaskurð.

Sjá nánar á vef Vinnslustöðvarinnar.