Fjármálamarkaðir um allan heim hafa lækkað mikið í dag í kjölfar úrslita í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi. Á föstudag lækkuðu fjármálamarkaðir heims um 2.080 milljarða Bandaríkjadala, sem er mesta lækkun á einum degi í sögunni. Er lækkunin meiri en þegar Lehman bræður fóru á hausinn meðan á efnahagskrísunni árið 2008 stóð.

Ekki merki um fjármálakrísu

Fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Jack Lew, segir samt sem áður að engin merki væri um fjármálakrísu vegna áhrifa úrsagnar Bretlands úr ESB.

Níu af tíu flokkum S&P lækkuðu, en eini sem ekki lækkaði eru orkuveitur en þær eru einmitt oft álitnar öruggar fjárfestingar þegar lækkanir eru á mörkuðum.

Flugfélög og bankar lækka mikið

Miklar lækkanir hafa verið á mörkuðum í London, þar sem fyrirtæki eins og Virgin Money Holdings hafa lækkað um 25,25% og easyJet hafa lækkað um 23,23%, en FTSE 100 vísitalan hefur lækkað um 2,45% og FTSE 250 vísitalan um 6,65%.

Í Bandaríkjunum hefur Ryanair Holdings lækkað um 13,75%, Barclays sem er skráð í New York en er breskt fyrirtæki hefur lækkað um 23,4%, sem og Lloyds Banking Group hefur lækkað um 17,12% og Royal Bank of Scotland Group um 15,10%.

Nasdaq vísitalan hefur lækkað um 2,59%, Dow Jones um 1,85% og S&P 500 vísitalan um 2,16%. Bankavísitalan evrópska, .SX7P náði sínu lægsta marki síðan í júlí 2012.