Fjármálaráðherra Bretlands, George Osborne, sagði hagkerfi landsins sterkt og bankar og fjármálastofnanir þess séu heilbrigðir. Hélt hann blaðamannafund fyrir opnun markaða í morgun þar sem hann sagði:

„Bretland er reiðubúið til að mæta framtíðinni enda staða landsins sterk. Er það vegna þess að á síðustu sex árum hefur ríkisstjórnin og breska þjóðin unnið hörðum höndum að því að byggja upp breska hagkerfið á ný.“

Bíða með að virkja 50. greinina

Osborne sagði að viðræður um nýtt fyrirkomulag samvinnu og samskipta við Evrópusambandið gæti tekið einhver ár og markmið Breta þyrfti að vera skýrt áður en grein 50 í Lisbon sáttmálanum væri virkjuð. Þegar það gerist setur hún af stað tveggja ára tímabil áður en landið er formlega komið úr sambandinu.

Helstu leiðtogar sambandsins segja að Bretland eigi að framfylgja niðurstöðum kosninganna eins fljótt og auðið er, sama hve sársaukafullt ferlið gæti orðið og það yrði ekki samið upp á nýtt.

Hótaði skattahækkunum og samdrætti ríkisútgjalda

Þetta er fyrstu opinberu ummæli hans sem einhverju nema síðan niðurstöður atkævðagreiðslunnar komu fram en hann hafði stutt áframhaldandi aðild. Sagði hann meðal annars fyrir atkvæðagreiðsluna að úrsögn myndi þýða hækkun skatta og minnkun opinberra útgjalda.

Nú sagðist hann myndi leggja fram tillögur þess efnis í haust og varaði hann við áhrifum aðlögunar hagkerfisins sem gæti dregið úr eyðslu og fjárfestingu vegna óvissu um framtíðarfyrirkomulag verslunar við ESB löndin. Sagði hann að niðurstaða kosninganna þýddi að sum fyrirtæki væru að halda aftur að ákvörðunum um frekari fjárfestingar eða ráðningar.