Flugmálayfirvöld í Bretlandi, Civil Aviation Authority hafa bannað allt flug flugvéla af gerðinni Boeing 737 Max 8 yfir lofthelgi landsins að því er BBC greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hafa á tæplega 5 mánaða tímabili tvær vélar af gerðinni farist skömmu eftir flugtak, og lækkaði gengi bréfa Icelandair og fleiri flugfélaga mikið í gær.

Á síðustu 40 mínútum, frá því að greint var frá banninu hefur gengi bréfa Icelandair lækkað um 8%, en félagið á þrjár slíkar vélar og hefur gert ráð fyrir að bæta 12 til viðbótar í flugflota sinn, þar af hefur verið gengið frá fjármögnun 9 þeirra.

Sagði fulltrúi Icelandair í gær enga ástæðu til að stöðva flug vélanna miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir en hann sagði að félagið myndi halda áfram að fylgjast með gangi mála í gegnum flugvélaframleiðandann Boeing.

Ákvörðun breskra flugmálayfirvalda koma í kjölfar þess að fleiri ríki hafa bannað vélarnar í sinni lofthelgi, má þar nefna Malasíu, Singapúr, Kína og Ástralíu. Jafnframt hefur Norwegian kyrrsett allar sínar 18 vélar af gerðinni sjálfviljugir og Suður Kóresk flugmálayfirvöld hafa beðið SilkAir, eina flugfélag landsins með þessa gerð véla um að fljúga þeim ekki.

Bresk flugmálayfirvöld segja bannið einungis vera varúðarráðstöfun og að áfram verði fylgst með stöðu málsins, enda hafi stofnunin ekki nægilegar upplýsingar frá flugrita vélarinnar sem fórst. Bandarísk flugmálayfirvöld hafa þvert á móti gefið það út að vélarnar séu traustsins verðar, en Boeing flugvélaframleiðandinn er bandarískur, meðan helsti keppinauturinn, Airbus er evrópskur.