Áætlaður kostnaður við að leggja raforkusæstreng milli Íslands og Bretlands er á bilinu 288 til 553 milljarðar króna samkvæmt skýrslu ráðgjafahóps um raforkustreng til Evrópu sem lögð var fyrir Alþingi í mánuðinum. Pétur Stefánsson, framkvæmdadtjóri UK Trade & Investment á Íslandi, segir Bretar séu tilbúnir til samstarfs. Þetta kemur fram í úttekt Fréttablaðsins um málið í dag sem ber yfirskriftina „Er sæstrengur ígildi olífundar?".

Ráðgjafahópurinn telur rétt að kanna alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra,  vill að eftir umfjöllun þingsins ákvarði stjórnvöld næstu skref.

Pétur segist vita að langstærsti hluti þessarar fjárfestingar verði erlend.

„Menn vilja samt hafa íslenska aðkomu að því til þess að tryggja að hagsmunir Íslendinga séu að þetta sé í lagi," segir Pétur í samtali við Fréttablaðið. „Þá má ímynda sér tryggingu fyrir því að það sé ekki pólitísk ákvörðun að skrúfa fyrir rafmagnsflæðið. Annars staðar er algengt að skiptingin sé 50/50, t.d. þar sem National Grid [breska Landsnet] hefur tengst Hollandi (TenneT). En þessi netverk eru mjög sterk fjárhagslega og vitað mál að Landsnet á enga möguleika á að fjárfesta fyrir 200 milljarða eða þeim mun meira í helmingaskiptafjármögnun á sæstreng. Menn gera sér engar grillur um slíkt. En áður en að slíku kemur þarf pólitíska ákvörðun um framhaldið og þá fyrst fara menn að tala um fjárfestingar."

Pétur segir í samtali við Fréttablaðið að margir fjárfestar komi til greina. National Grid komi til greina, enda risafyrirtæki. Það gæti líka verið að Landsnet og National Grid vildu aðeins vera rekstraraðilinn en þriðji aðili kæmi inn með fjármagnið til að borga framkvæmdirnar.

"Það kemur í ljós ef og þegar menn bjóða út verkefnið á grunni þess að það sé hagkvæmt. En það eru sannarlega til aðilar í heiminum sem eru boðnir og búnir til að fjármagna svona framkvæmd, enda væri um stöðuga ávöxtun til langs tíma að ræða. Svona verkefni eru til dæmis spennandi fyrir lífeyrissjóði sem eru að leita að slíkri ávöxtun í takti við skyldur við sína umbjóðendur. En þetta er verkefni sem mun kosta um mörg hundruð milljarða. Því er flækjustigið afar mikið," segir Pétur.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir í samtali við Fréttablaðið að jákvæðu hliðarnar frá sjónarhóli Landsvirkjunar séu margþættar.

"Það átta sig ekki allir á því en raforka er af mismunandi tagi," segir Pétur. „Besta dæmi er yfirfall sem á sér stað í virkjunum Landsvirkjunar þegar vatnslón eru orðin full. Tíu til tuttugu prósent af árvatni renna í sjó fram engum til gagns. Landsvirkjun hefur eytt áratugum í að finna einhvern til að kaupa þessa ótryggu orku en það hefur ekki tekist. Ástæðan er sú að á 20-30 ára fresti koma slæm vatnsár og enginn stóriðnaður vill kaupa orku sem er ekki 100% örugg," segir Björgvin og vísar til þess að allt að því 2/5 hlutar þeirrar orku sem gæti farið um sæstreng komi frá slíku yfirfalli. Magnið og verðmætin eru gríðarleg, enda er flutningsgeta sæstrengs metin á 700 til 1.100 megavött (MW). Þetta er orka sem er verðlaus í dag og nýtist aldrei til iðnaðaruppbyggingar hérlendis.