Evrópskir leiðtogar segja að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, verði að segja hvers konar viðskiptasamband ríkisstjórn hennar vill til þess að geta hafið samningaviðræður um málið af alvöru í mars að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal .

Breska ríkisstjórnin hefur ekki náð samstöðu um hvers konar samband hún vill við Evrópusambandið þegar Brexit gengur í gegn í mars 2019.

„Fyrsta raunverulega stóra skrefið er að Bretland þarf að segja mjög skýrt hvað það vill,“ hefur Wall Street Journal eftir Joseph Muscat, forsætisráðherra Möltu.

Theresa May mun á þriðjudaginn í næstu viku halda fyrsta fund af mörgum að því er búist við þar sem reynt verður að ná samstöðu um afstöðu Bretlands gagnvart viðskiptasambandi við ESB.