Daniel Hannan er Evrópuþingmaður breska Íhaldsflokksins en hann hefur í gegnum árin margoft komið hingað til lands ásamt því að vísa óspart á gott gengi Íslands utan Evrópusambandsins í baráttu sinni fyrir útgöngu lands síns úr sambandinu.

Daniel Hannan segist vera mjög hrifinn af EFTA þó hann telji ekki að EES-samningurinn myndi henta Bretlandi.

„Ef Bretland gengur inn í EFTA, þá er ljóst að eðli EFTA breytist töluvert. Jafnvægið milli EFTA og ESB breytist mjög mikið, sem er tækifæri fyrir EFTA-löndin til að ná fram betri samningum og losna við sumt af því sem truflar þau við núverandi fyrirkomulag,“ segir Hannan.

„Ef Bretland gæti náð fram frjálsu flæði vöru, þjónustu og fjármagns ásamt töluverðu frelsi í flutningi vinnuafls, án þess að það væri algerlega opið fyrir alla, þá gæti verið hægt að opna slíkt kerfi fyrir aðra, því mér sýnist að með þessu gætum við náð fram einhverju sem allir gætu fellt sig við.

Theresa May segir að hún vilji að Bretland leiði heiminn í fríverslun, sem gefur okkur gríðarleg tækifæri þegar við byrjum á að opna markaði okkar og losna undan öllum tollum og kvótum Evrópusambandsins,“ segir Hannan.

„Ef við getum gert þetta rétt, líkt og lítil ríki eins og Nýja Sjáland, Hong Kong og Singapúr hafa gert, þá getur það haft mikil áhrif á heiminn. Því þó þessi litlu ríki græði á því þá hefur það lítil áhrif á heiminn sjálfan en annað væri upp á teningnum þegar eitt af stærstu iðríkjum heims myndi gera það.

Lönd í Afríku og Asíu gætu haft hag af því og allt fólkið sem gæti þá selt inn inn á markaði okkar, en einnig er ég bjartsýnn á fríverslunarsamning við Bandaríkin eftir að vera nýkominn þaðan, því ljóst er að ekki verður af samningi þeirra og ESB.“

Spurður út í eigin áætlanir nú þegar hyllir undir atvinnuleysi hans segist hann vilja taka þátt í áframhaldandi baráttu fyrir fríverslun í heiminum sem hann telji mjög brýna.

„Það hefur aldrei verið betra að vera til en nú og markaðskerfið hefur bætt heiminn gríðarlega. Samt sem áður hefur það aldrei verið jafnóvinsælt. Allt unga hugsjónafólkið sem mótmælir á fundum iðnríkjanna og fríverslun heldur að það sé að hjálpa fátæka fólkinu á móti stórfyrirtækjunum þegar því er í raun þveröfugt farið, því það eru stórfyrirtækin sem græða mest á öllum hömlum á frelsi markaðarins, meðan fátækt fólk hagnast á að losna við hömlurnar,“ segir Hannan.

„Ég held ég muni reyna að setja upp litla hugveitu sem gæti hjálpað til við að ná fram og tala fyrir slíkum samningum því fríverslun er lykillinn að því að losna við fátækt og átök og ná fram félagslegu réttæti.“

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér. Aðrir geta skráð skráð sig í áskrift á einfaldan hátt hér.