Kjósendur í Bretlandi hafa ákveðið að landið skuli ganga úr Evrópusambandinu með 52% atkvæða gegn 48% þeirra sem vildu að landið haldi áfram í sambandinu.

Sjálfstæðisdagur Bretlands

Nigel Farage, formaður UK Independece Party sem barist hefur fyrir úrsögn úr ESB í 20 ár, kallaði daginn sjálfstæðisdag landsins líkt og Boris Johnsson, talsmaður baráttunnar fyrir úrsögn, hvatti landsmenn til að líta á daginn sem, í ræðum sínum fyrir kosninguna.

Kosningin fór fram í gær með 71,8% þátttöku þar sem meira en 30 milljón manns kusu, sem er hæsta kosningaþátttaka í nokkrum kosningum í landinu síðan 1992. Fyrirfram litu aðildarsinnar á að há kosningaþátttaka myndi hagnast þeim þar sem óákveðnir væru líklegri til að kjósa með óbreyttu ástandi líkt og í fyrri kosningum.

Sigur venjulegs, heiðarlegs fólks

Nigel Farage sagði þetta sigur „venjulegs fólks, heiðarlegs fólks“ og kallaði á David Cameron forsætisráðherra, sem barðist fyrir áframhaldandi veru í sambandinu, að segja af sér án tafar.

Einnig sögðu heimildarmenn úr Verkamannaflokknum að Cameron „ætti alvarlega að íhuga stöðu sína“ en helstu talsmenn úrsagnar í Íhaldsflokknum, eins og Boris Johnsson og Michael Gove dómsmálaráðherra, hafa þegar skrifað undir bréf sem hvetur hann til að halda áfram sem forsætisráðherra, sama hver úrslitin yrðu.

Kjósendur í Englandi, sérstaklega utan við London, ásamt Wales kusu úrsögn meðan kjósendur í London, Skotlandi og Norður Írlandi kusu með áframhaldandi aðild.