Gengi íslenskra hlutabréfa hefur lækkað verulega það sem af er degi og hefur veltan aukist nokkuð frá hádegi. Þegar þetta er ritað (um kl. 14:40) hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 3,46%. Mest er lækkunin hjá Icelandair, sem lækkað hefur um 4,68% og Marel, sem lækkað hefur um 4,13% í dag.

Sérfræðingar á markaði sem Viðskiptablaðið hefur rætt við í dag segja að hér sé um að ræða áhrif frá þjóðaratkvæðagreiðsluna í Bretlandi frá því í síðustu viku, en þá greiddi meirihluti atkvæði með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Viðmælendur Viðskiptablaðsins segja að afar mikil óvissa einkenni erlenda markaði nú. Engin leið sé að segja til um það með vissu hvaða áhrif útganga Breta muni hafa, hvort heldur sem er á breska hagkerfið eða á Evrópu almennt. Gera má því ráð fyrir því að fjárfestar séu nú öðru fremur að halda að sér höndum.

Sú staðreynd að Icelandair og Marel hafa lækkað mest íslenskra félaga er til marks um þessa erlendu óvissu. Viðmælendur Viðskiptablaðsins benda þó á að erlend flugfélög hafa verið að lækka töluvert meira en Icelandair, sem sé líklega betur til þess fallið en mörg flugfélög að standa af sér sveiflur sem þessa. Eins sé gengi bréfa Marels að lækka vegna ótta við áhrif útgöngu Breta á evrópska markaðinn.