Jakob Sigurðsson hefur tekið við stjórnarformennsku í Creditinfo Group og Nora Kerppola kemur ný inn í stjórnina. Reynir Grétarsson, sem áður gengdi stjórnarformennsku, verður áfram forstjóri félagsins en hann er jafnframt stærsti einstaki eigandi þess.

Fyrrum landsliðsmaður

Jakob var forstjóri Promens á árunum 2011-2015. Einnig hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri viðskiptasviðs hjá deCODE genetics og þar áður forstjóri Alfesca, sem áður hét SÍF. Jakob hefur gengt ýmsum stjórnunarstörfum hjá bandaríska fyrirtækinu Rohm and Haas í Evrópu og Bandaríkjunum, en hann útskrifaðist með BS gráðu í efnafræði frá Háskóla Íslands 1989. Auk þess hefur hann lokið MBA gráðu við Kellogg stjórnunarskólann við Northwestern University í Illinois í Bandaríkjunum, en Jakob var landsliðsmaður í handbolta til margra ára.

Nora er framkvæmdastjóri hjá Nordic Investment Group Oy, en hún situr jafnframt í stjórn Capman Plc, Creditinfo Eistlandi og Sanduka Oy. Hún hefur yfir 20 ára reynslu sem fjárfestir og stjórnarmaður í óskráðum fyrirtækjum í Evrópu og Norður Ameríku, en hún hefur verið stjórnarmaður eða stjórnarformaður í 17 fyrirtækjum í 7 löndum auk þess að stýra hlutabréfasjóðum. Hún útskrifaðist 1986 frá Clark University með BA í hagfræði og með MBA frá Columbia University, með láði, í fjármálum og alþjóðaviðskiptum árið 1988.